
Ný sending af sumarhita í kortunum
Eftir slyddu í byrjun vikunnar er rækilegur viðsnúningur á veðrinu á Austurlandi í dag og áfram næstu daga. Búist er við 15 stiga hita á Héraði og Vopnafirði í dag en það hitastig hefur þegar mælst á svæðinu.Samkvæmt Veðurstofu Íslands var hitinn þegar kominn í 15,2 gráður á Borgarfirði klukkan átta í morgun. Þá mældust 13 gráður á Seyðisfirði.
Veðurspáin gerði reyndar ekki ráð fyrir þessum hita fyrr um hádegi og þá á Héraði og Vopnafirði en heldur svalara við ströndina. Hitanum fylgir sól og hægur vindur.
Á morgun fer hitinn væntanlega ekki rétt nema upp fyrir tíu stig, hlýrra verður inn til landsins en út við sjóinn og hætta á rigningu þar að auki.
Á föstudag spáir Veðurstofna 19 stiga hita á Héraði og 16-17 stiga hita víða á Austfjörðum, þrátt fyrir skýjahulu. Þessu fylgir strekkingsvindur. Sé horft lengra fram í tímann má aftur reikna með 15 stiga hita og sól á laugardag en heldur svalara veðrið og rigningu á sunnudag.