Ný próteinverksmiðja Síldarvinnslunnar komin í gang

Fyrri áfangi stækkunar fiskimjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, svokölluð próteinverksmiðja, hefur verið gangsett. Verksmiðjustjóri segir hana fela í sér ýmsa nýja möguleika.

Í byrjun síðasta árs var tilkynnt að Síldarvinnslan ætlaði að gerbreyta fiskimjölsverksmiðjunni og auka afköst hennar úr 1400 tonnum á sólarhring í 2.380 tonn. Annars vegar var um að ræða stækkun stóru verksmiðjunnar upp í 2000 tonn, hins vegar smíði minni verksmiðju, svokallaðrar próteinverksmiðju, upp á 380 tonn. Því verki er nú lokið en stóra verksmiðjan verður tilbúin eftir um ár.

Próteinverksmiðjan er með tveimur 190 tonna framleiðslulínum og hefur önnur þeirra verið í gangi í tvær vikur. Á vef Síldarvinnslunnar er haft eftir Hafþóri Eiríkssyni, verksmiðjustjóra, að alltaf sé byrjunarörðugleikar þegar nýr búnaður sé gangsettur en fyrstu mælingar sýni að afurðirnar séu góðar.

Hann segir mikla möguleika fylgja því að hafa tvær mismunandi smiðjur, til dæmis sé hægt að vinna ólíkt hráefni í þeim á sama tíma. Þá sé hægt að nota hana til þróunarvinnu.

„Þegar fiskiðjuverið er að vinna passar þessi litla verksmiðja vel til að vinna afskurð og brottkast frá því. Hingað til hefur afskurði og brottkasti frá verinu verið safnað saman og síðan hefur það verið unnið í stóru verksmiðjunni. Nú þarf hins vegar slík söfnun ekki að eiga sér stað heldur er hráefnið unnið strax þegar það er ferskt. Þetta skiptir miklu máli og hefur að sjálfsögðu áhrif á gæði afurða.

Eins skapar tilkoma litlu verksmiðjunnar mikla möguleika á sviði orkuhagræðingar en gert er ráð fyrir að orkusparnaður með tilkomu hennar nemi allt að 30%,“ segir Hafþór.

Mynd: Síldarvinnslan/Smári


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.