Ný Hafbjörg komin til Norðfjarðar

Ný Hafbjörg, björgunarskip með aðsetur í Norðfjarðarhöfn, kom til heimahafnar í gær. Hópur bæjarbúa beið skipsins og eldri björgunarbátar fylgdu því síðasta spölinn.

„Þegar við komum inn í Norðfjarðarflóa beið gamla Hafbjörg eftir okkur ásamt bátum björgunarsveitarinnar Gerpis. Hersingin sigldi saman síðasta spölinn inn fjörðinn,“ segir Hafliði Hinriksson, leiðangursstjóri.

Nýja Hafbjörgin er smíðuð árið 1996 og leysir af hólmi 12 árum eldra skip með sama nafni. Lagt var af stað frá Skagen í Danmörku miðvikudaginn í síðustu viku, haldið þaðan til Egersund í Noregi og Lerwick á Hjaltlandseyjum. Bæði þar og í Þórshöfn í Færeyjum þurfti áhöfnin að sæta lags vegna veðurs.

Loks var lagt af stað frá Færeyjum um kvöldmat á mánudag og komið til Norðfjarðar um ellefuleytið í gær.

„Þegar við fórum frá Þórshöfn var veðrið byrjað að ganga niður. Við fengum smá brælu fyrst eftir að við komum norður fyrir Fuglafjörð en báturinn lá vel og vel fór um áhöfnina. Sjólagið skánaði eftir því sem við fjarlægðumst eyjarnar og siglingin gekk vel,“ segir Hafliði um lokaáfanga heimsiglingarinnar.

Fjölmargir Norðfirðingar biðu skipsins þegar það sigldi inn í smábátahöfnina. „Það var greinilegur spenningur í bæjarbúum því að stór hópur beið á bryggjunni til að fá að koma um borð og skoða. Það var mjög ánægjulegt að skila þessu glæsilega skipi til nýrrar heimahafnar og ljúka þar með þessu verkefni sem hefur verið unnið að síðan í nóvember á síðasta ári,“ segir Hafliði.

Skipið verður til sýnis milli 16-18 á morgun, 17. júní við húsnæði björgunarsveitarinnar að Nesgötu 4.

Mynd: Síldarvinnslan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.