Orkumálinn 2024

Ný göngubrú stóreykur öryggi á Víknaslóðum

„Mér er til efs að til sé mikið fallegra útsýni yfir stóran hluta fjarðarins en frá miðri nýju brúnni,“ segir Gunnar Sverrisson, formaður Gönguklúbbs Seyðisfjarðar en klúbburinn fagnar á þessu ári 20 ára afmæli.

Stór stund varð meðal félaga í vikunni þegar þeir, með aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar, komu fyrir nýrri, glæsilegri 9,5 metra langri járnbrú yfir Selstaðaá í Kolstaðadal en brúarstæðið er í 540 metra hæð fyrir ofan Selsstaðabæinn. Brúin er á hinni vinsælu gönguleið um Víknaslóðir og mun nýtast þeim fjölmörgu sem ganga þá leiðina alla í framtíðinni.

Gunnar segir að undirbúningur að þessu verkefni hafi hafist síðastliðið haust þegar valið var ákjósanlegt brúarstæði, hæðarmælingar gerðar auk burðarþolsútreikninga. Hafist var svo handa við smíðina sjálfa um leið og ljóst var að klúbburinn hlaut styrk frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir 80 prósentum af heildarkostnaði við verkefnið. Kostnaður er áætlaður tæpar 3,4 milljónir króna.

Nýja brúin auðveldar ekki aðeins aðgengi og kemur í veg fyrir myndun hentistíga heldur og stóreykur öryggi segir Gunnar.

Brúin er á vinsælli gönguleið milli Loðmundarfjarðar og Seyðisfjarðar og á henni eru tvö allstór vatnsföll sem oft eru stórhættuleg göngufólki þegar mikið vatn er í þeim. Við þekkjum mörg dæmi þess að fólk hafi lent í verulegum vanda við þessar ár. Oft hefur fólk þá leitað upp með árfarveginum að snjóloftum sem geta verið hættuleg óvönum. Hjálmá sem er á þessari gönguleið var brúuð sl. sumar með 6 m langri göngubrú og nú er einnig komin brú á Selsstaðaá.

Vill Gunnar fyrir hönd klúbbsins koma á framfæri miklu þakklæti til allra voru klúbbnum innan handar við þetta verkefni og er sérstaklega ánægður með að ljúka slíku verki á sjálfu afmælisári klúbbsins.

Ekki ofsögum sagt að útsýnið af brúnni nýju sé stórkostlegt fyrir utan notagildið á vinsælum gönguleiðum. Mynd Elvar Snær Kristjánsson.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.