Orkumálinn 2024

Ný fráveita ekki í umhverfismat

Skipulagsstofnun telur ekki líklegt að ný fráveita fyrir þéttbýlið á Fljótsdalshéraði hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Því þurfi hún ekki í umhverfismat. Umhverfisstofnun telur að skýra þurfi betur hvenær markmiðum um tveggja þrepa hreinsun verði náð. Áhrif framkvæmdarinnar verði jákvæð frá því sem er.

Þetta kemur fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar sem birt var á vef stofnunarinnar í morgun.

Þar er rakið að ætlun framkvæmdarinnar sé að safna saman öllu skólpi frá Egilsstöðum og Fellabæ í eitt hreinsivirki og eina útrás í Lagarfljót, norðan flugbrautarinnar. Í dag eru fimm útrásir í Lagarfljót, þrjár í Eyvindará og eru fjórar þeirra með hreinsivirkjun. 65% skólpsins fer samt óhreinsað út.

Framkvæmdinni er skipt upp í þrjá áfanga. Í þeim fyrsta verða lagðar 6 km langar lagnir á Egilsstöðum og hreinsistöðin byggð. Því á að vera lokið 2023. Í öðrum áfanga verða byggðar 3 km langar lagnir í Fellabæ og hann tengdur við hreinsunina. Því verður lokið 2023. Í þriðja áfanga verður bætt við síum til að uppfylla ákvæði um annars stigs hreinsun. Sá áfangi er ótímasettur. Samhliða þessu verði núverandi lagnakerfi lagfært.

Óljóst hvenær tveggja þrepa hreinsun verður að veruleika

Í umsögn Umhverfisstofnunar er gerð athugasemd við að áætlunin sé ekki betur tímasett. Í svari Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF), sem fer með fráveitumál, segir að markmiðinu sé hægt að ná með síum sem komnar verði upp árið 2024 og þeim verði náð þegar núverandi hreinsivirki verða leyst af hólmi á árunum 2023-2027.

Umhverfisstofnun gerir þá athugasemd við að óljóst sé hvort markmiðinu verði náð árið 2024 eða 2027, þegar hreinsivirkin eigi að vera tilbúin og hverju þurfi að ljúka þar á milli.

Umhverfisstofnun fagnar þó framkvæmdinni. Mikilvægt sé að byrjað verði sem fyrst þannig að óhreinsað skólp renni ekki lengur út í Eyvindarár. Þörf sé á tveggja þrepa hreinsun skólps sem renni út í Lagarfljót og sú hreinsun hefði samkvæmt lögun strax átt að vera komin upp árið 2005.

Stofnunin telur framkvæmdina ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, nema síður sé, líklegt sé að áhrifin séu jákvæð miðað við núverandi ástand. Ekki sé ástæða til að fara með framkvæmdina í umhverfismat, þar sem ekki sé þar von á nýjum upplýsingum.

Fiskistofa tekur einnig undir að áhrif á vatnalíf batni með nýju hreinsivirki. Bent er á að aðstæður í Lagarfljóti hafi versnað verulega eftir tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og þótt magn næringarefna kunni að minnka lítillega með hreinsuninni, sé raskið smávægilegt miðað við það sem þegar sé orðið.

Áhrif á svæði á náttúruminjaskrá ekki varanleg

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) og Umhverfisstofnun gera athugasemdir að ekki sé nægilega gerð grein fyrir vöktun á áhrifum framkvæmdarinnar, sem HEF heitir að verði unnin í samráði fyrir eftirlitsstofnanir. Skipulagsstofnun tekur undir mikilvægi vöktunaráætlunar.

HAUST gerir einnig athugasemdir við að persónueiningar sem hreinsa þurfi séu vanáætlaðar, gera þurfi grein fyrir magni fráveituvatns í kerfinu og að endurskilgreina þurfi þynningarsvæði.

Í svörum HEF segir að rennsli skipti meira máli en persónueiningarnar og tekið sé tillit til fráveituvatnsins. Útrásin á vera á fimm metra dýpi í miðju Lagarfljóti og ólíklegt sé að saurgerlar eða önnur efni berist upp á bakka fljótsins í miklum styrk.

Náttúrufræðistofnun bendir á að hluti þess svæði sem framkvæmdirnar verði þá séu á náttúruminjaskrá. Áhrifin þar eru talin nokkur á framkvæmdatíma en ekki varanlegt ef staðið verði að verki eins og lýst sé í áætlun HEF. Þá staðfestir Skipulagsstofnun að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag en vinna þurfi nýtt deiliskipulag. Þá minnki lyktarmengun þar sem hreinsivirkið sé í meiri fjarlægð frá íbúabyggð en þau sem notuð séu í dag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.