Nær öllum umsóknum í Vaxtarsamning Austurlands hafnað: Uppfylltu ekki skilyrðin

vaxa.jpg
Stjórn Vaxtarsamnings Austurlands hafnaði nær öllum þeim umsóknum sem bárust í sjóðinn á síðasta ári. Af tuttugu milljónum sem voru til ráðstöfunar var alls úthlutað 2,7 milljónum til þriggja verkefna. Aðrar umsóknir voru ekki taldar uppfylla þau skilyrði sem sett voru.

Á vef Austurbrúar, sem heldur utan um verkefnið, segir að 25 umsóknir hafi borist um tæpar fimmtíu milljónir króna. Af þeim fengu þrjú verkefni, Bragðaukar með austfirsku hráefni fengu 700.000 krónur og Hunting specialists og Jarðvangurinn Austurland sína milljónina hvort.

Hrund Snorradóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, segir að ástæðan fyrir höfnuninni sé sú að ekki hafi fleiri umsóknir uppfyllt þau skilyrði sem sett voru. 

„Það er stefna stjórnar að úthluta faglega úr vaxtarsamningnum til umsókna sem standast þær reglur sem settar eru fram í vaxtarsamningnum. Því miður uppfylltu ekki fleiri umsóknir skilyrði samningsins árið 2012.“

Áhersla á klasasamstarf

Í markmiðum Vaxtarsamningsins segir meðal annars að hann sé ætlaður til að „efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífsins“ á Austurlandi „og auka hagvöxt með virku samstarfi fyrirtækja, háskóla, sveitarfélaga og ríkisins.“

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu klasa og framgang rannsókna og þróunar á sviði náttúru og sjálfbærni. Þá er bent á að áherslur og markmið samningsins geti breyst „vegna stefnumótunar og samþættingu áætlana á grundvelli Sóknaráætlunar 2020.“

Atvinnumálanefnd harmar afgreiðsluna

Umsóknarfrestur rann út í byrjun september en umsækjendum var ekki svarað fyrr en síðustu vikunni fyrir jól. Ákvörðun um að styrkja verkefnin var samt tekin á fundi stjórnar samningsins þann 11. október.

Í bréfi til umsækjenda er beðist velvirðingar á hversu seint svarið berist en ekkert kemur þar sérstaklega fram um hvaða kröfur tilteknar umsóknir uppfylltu ekki. Umsækjendur sem Austurfrétt hefur rætt við eru margir mjög óánægðir með seinaganginn. Þeir gagnrýna einnig að úthlutunarreglurnar séu óljósar og lítið um skyldur samningsins gagnvart þeim sem sækja um. Í höfnunarbréfinu eru engar skýringar gefnar fyrir höfninni.

Atvinnumálanefnd Fljótsdalshéraðs er ein af þessum óánægjuröddum. Í bókun nefndarinnar frá því í vikunni er afgreiðsla stjórnar Vaxtarsamningsins „hörmuð.“ Sótt var um styrk í verkefnin Markaðssetning gagnvart fjárfestum og Markaðsátak í ferðaþjónustu, verslun og vöruframleiðslu á Héraði. Nefndin taldi verkefnin falla vel að markmiðum sjóðsins. Undir þetta tekur bæjarráð sveitarfélagsins.

Tvöfaldur pottur 2013

Til úthlutunar árið 2012 voru tuttugu milljónir króna. Hjá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu, sem veitir fjármagni í samninginn, fengust þær upplýsingar að almennt væri gert ráð fyrir að fjárveitingar hvers árs nýtist innan þess. Mörg dæmi séu um að „einhverjir fjármunir færist milli ára og hefur ráðuneytið ekki gert athugasemdir við það meðan ekki er um verulegar upphæðir er að ræða.“

Hjá Austurbrú reikna menn með að þær 17,3 milljónir, sem eftir eru af forða ársins 2012, leggist við þær tuttugu milljónir sem til ráðstöfunar eru 2013. 

„Vaxtarsamningur Austurlands 2010-2013 er gerður til fjögurra ára. Vissulega er æskilegt að það fjármagn sem eyrnamerkt sé vissu ári gangi út á því ári en ekki eru gerðar kröfur um það í samningnum. Því fer það fjármagn sem ekki var úthlutað árið 2012 til úthlutunar árið 2013,“ segir Hrund.

Umsækjendum hefur verið vísað á að sækja um aftur. Næsti umsóknarfrestur er í febrúar og stefnt að úthlutun í mars. 

„Það er von stjórnar að umsóknir árið 2013 uppfylli skilyrði samningsins og að það fjármagn sem til er verði úthlutað í verkefni sem uppfylla skilyrði samningsins, eru með skýra stefnu og markmið sem falla að markmiðum vaxtarsamningsins og svæðisbundnum áherslum, nákvæma og raunhæfa kostnaðaráætlun og góða greiningu á bak við mælikvarða svo eitthvað sé nefnt.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.