Nýr bæjarstjóri í Fjarðabyggð

ImageÁ síðasta bæjarstjórnarfundi Fjarðabyggðar tók Páll Björgvin Guðmundsson við embætti bæjarstjóra. Helga Jónsdóttir afhenti Páli lyklavöldin í lok fundar og óskaði honum góðs gengis í embættinu.

 

„Þetta er víðfermt og fjölbreytt starf og ákaflega spennandi starfsvettvangur og mikil áskorun að taka við þessu starfi og ná að lenda því þannig að allir séu sáttir“ segir Páll Björgvin aðspurður út í það hvernig honum lítist á nýja starfið.

Páll Björgvin segir að Fjarðabyggð sé „stórt sveitarfélag, ekki síst í landfræðilegum skilningi“ og telur að það sé flóknara að stýra margkjarna sveitarfélagi heldur en sveitarfélagi sem samanstandi af einum byggðarkjarna.
 
Hann segir sín fyrstu verk snúa að fjárhagsáætlanagerð og fjárhagi sveitarfélagsins. „Þrátt fyrir umtalsverðar skuldir og skuldbindingar stendur rekstur sveitarfélagsins á traustum fótum, enda tekjuhliðin sterk. Sveitarfélagið hefur alla burði til að standa í skilum en rými til aukinna rekstrarútgjalda og nýframkvæmda er takmarkað um þessar mundir.“

Hann segir að tekjustofnanir séu sterkir en að sú stórframkvæmd sem sveitarfélagið ætti að líta til næst sé ný leikskólabygging á Neskaupstað enda hafi menn lengi stefnt að því að ljúka því verkefni. Núna fari allur tíma í að „hagræða og velta við öllum steinum og því ekki hægt að tímasetja þá framkvæmd.“

Hann segist jafnframt ætla að gefa sér nægan tíma í að kynna sér starfsemi sveitarfélagsins og svo mun yfirfærsla á málefnum fatlaðra til sveitarfélaganna vera „heljarstórt verkefni sem mun taka tíma að innleiða enda stór málaflokkur.“


Páll Björgvin starfaði hjá sveitarfélaginu frá 2004- 2008 sem fjármálastjóri og þekkir því vel vinnustaðinn og margt af því starfsfólki sem starfar á bæjarskrifstofunni. Hann telur sína reynslu sem fjármálastjóra sem og menntun koma til með að „nýtast mjög vel, sérstaklega varðandi endurfjármögnun og fjármögnun almennt“. Páll Björgvin hefur starfað sem bankastjóri Íslandsbanka á Austurlandi frá 2008.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.