Orkumálinn 2024

Þyrlan sparaði rúma tvo daga í vinnu - Myndband

RARIK notaði þyrlu til að klára Mjóafjarðarlínu í gærdag og allt gekk eins og best var á kosið. Raunar gekk verkið betur en bjartsýnustu vonir gerðu ráð fyrir.

Hafliði Bjarki Magnússon rafvirki og verkstjóri hjá RARIK á Egilsstöðum segir að þeir hafi reiknað með að þessi síðasti hluti verksins myndi taka þrjá daga.

„Í staðinn tók verkið aðeins fjóra tíma,“ segir Hafliði Bjarki. „Við notuðum þyrlu og það munaði verulega að hafa hana því með henni vorum við bara klukkutíma með hvert af þessum þremur spennum sem við settum upp.“

Spenn  er orð sem notað er yfir spenntan vír á milli staura en hvert af þessum spennum sem sett voru upp er um 1.000 metrar á lengd

Fram kemur í máli Hafliða Bjarka að það sé einstakt að hafa náð þessu á svo skömmum tíma. „Það er komið fram í seinni hlutann í október og um tíma vorum við að velta því fyrir okkur að fresta þessu verki fram á næsta vor,“ segir hann.

Hafliði Bjarki segir að RARIK hafi tekið þyrluna á leigu til þessa verks en þyrlur eru einatt notaðar t.d. í Noregi og víðar við þær aðstæður sem vinnuflokkurinn þurfti að glíma við það er snarbratta fjallshlíð.

„Málið er að við vorum að setja upp álvír sem má ekki dragast eftir jörðu og því var nauðsynlegt að hafa þyrluna,“ segir Hafliði Bjarki. „Í gamla daga var um stálvír að ræða og þá var honum bara hent fram af brúninni.“

Myndefni: Hafliði Bjarki Magnússon



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.