Orkumálinn 2024

Norskar herþotur væntanlegar til æfinga

Íbúar á Egilsstöðum og nágrenni geta átt von á að kyrrðin verði rofin hraustlega í vikunni þegar norskar orrustuþotur verða við æfingar á Egilsstaðaflugvelli.

Sveit frá norska flughernum kemur til Keflavíkur í dag til að sinna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Ráðgert er að loftrýmisgæslunni ljúki um miðjan febrúar.

Sveitin er með fjórar F-35 orrustuþotur og 80 liðsmenn. Gert er ráð fyrir að sveitin æfi aðflug að flugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri á bilinu 16. – 24. janúar. Veður ræður endanlega hvenær æfingarnar verða.

Samkvæmt tilkynningu frá Landhelgisgæslunni er þetta í sjöunda sinn sem Norðmenn leggja Atlantshafsbandalaginu til flugsveit til að taka þátt í verkefninu á Íslandi en norski flugherinn var síðast hér á landi árið 2021.

Flugsveitin tekur þátt í verkefninu ásamt starfsmönnum í stjórnstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, (NATO Control and Reporting Center-Keflavik).

Framkvæmd verkefnisins verður með sama fyrirkomulagi og áður og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Atlantshafsbandalagsins fyrir Ísland. Flugsveitin kemur til með að hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli en þar dvelja einnig flugsveitir aðildarríkja Atlantshafsbandalagins við kafbátaeftirlit. Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í umboði utanríkisráðuneytisins og í samvinnu við Isavia.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.