Orkumálinn 2024

Norræna getur innan fárra ára hætt að brenna olíu á Seyðisfirði

Hafnaryfirvöld á Seyðisfirði ráðgera að hefjast handa við byggingu húss yfir nýja spennistöð á næstunni en þegar húsið verður byggt og spennustöð komin þar fyrir getur farþegaskipið Norræna hætt að brenna olíu meðan skipið er í höfn í bænum.

„Það þarf auðvitað tvo til í þessu en við ætlum allavega að vera með okkar á hreinu þegar skipseigendur ákveða að setja upp þær vélar sem til þarf til að keyra allt á rafmagni,“ segir Rúnar Gunnarsson, yfirhafnarvörður, í samtali við Austurfrétt.

„Raunin er sú að meðan vetraráætlun er í gangi þá leggur skipið hér að landi klukkan níu að morgni á þriðjudögum og er hér bundið fram á kvöld á miðvikudögum. Á þeim tíma þá brenna þeir heilmikilli olíu til að halda öllu gangandi um borð. Það er bæði dýrt og mengun hlýst af. Þetta reyndar ekki svartolía enda hún bönnuð en olía samt og það verður oft vart við mengun af þessu þegar lygnt er í firðinum.“

Rúnar segir óljóst hvenær þetta verði að veruleika en gælir við að Seyðisfjarðarmegin geti aðstaðan verið  klár seint á næsta ári en segir það þó ýmsum breytingum háð. Staðfest er gegnum RARIK að nóg rafmagn sé til að knýja skipið þegar til kemur en meðalnotkun Norrænu á viðlegutíma á Seyðisfirði er um 1,3 MW.

„Svo vitum við lítið um hvað forráðamenn hjá Norrænu sjá fyrir sér. Það kostar jú eitthvað að fara í breytingarnar hjá þeim en fróðir segja mér að skipið ætti ekki að þurfa í slipp útaf þessu. Á móti kemur lægri kostnaður til lengri tíma, minni mengun og þeir geta kannski auglýst sig sem grænan kost til Íslands.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.