Orkumálinn 2024

Norðfjarðará braut sér leið inn í ruslagryfju

Landeigandi á Norðfirði hefur fengið frest til að taka til eftir sig eftir að Norðfjarðará braut sér leið inn í ruslagryfju á landi hans þannig að rusl flæddi út í ána. Óheimilt er að urða úrgang annars staðar en á á viðurkenndum urðunarstöðum.

„Svo virðist sem ábúandi hafi losað sig við rúlluplast og annað sem fellur til við búskapinn niðri við árbakkann.

Ástandið er ekki nógu gott. Landeigandinn hefur fengið frest fram í næstu viku til að taka til, annars verður farið í framkvæmdir á hans kostnað,“ segir Leifur Þorkelsson, starfandi framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Austurlands.

Ekki var veitt leyfi fyrir að urða sorpið á þessum stað en óheimilt er að urða úrgang annars staðar en á viðurkenndum urðunarstöðum. Í vor gróf áin sig inn í bakkann og komst í gryfjuna með þeim afleiðingum að ruslið barst niður ána.

Veiðimenn hafa nokkrar áhyggjur af lífríki árinnar sem þykir ein besta sjóbleikjuveiðiá landsins. Sögur hafa gengið um að í ruslagryfjunni hafi verið fjöldi dýraskrokka en Leifur segir þær sögur orðum auknar, eftirlitið geti ekki staðfest nema eitt dýrahræ í gryfjunni. „Það er hins vegar aldrei gott að fá svona mengun út í ár.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.