Nemendur ME takast á við áskoranir til styrktar Píeta-samtökunum

Nemendafélag Menntaskólans á Egilsstöðum stendur þessa vikuna fyrir áskorunarviku þar nemendur ögra sjálfum sér í áheitasöfnun til styrktar Píeta-samtökunum.

„Áskorunin verður að vera ögrandi, eitthvað sem nemandanum finnst óþægilegt að gera. Það verður þó að vera innan skynsamlegra marka, hvorki hættulegt né dónalegt,“ útskýrir Tómas Viðar Úlfarsson, formaður Nemendafélags ME.

Hugmyndaauðgi prýðir áskoranirnar sem nemendur geta annað hvort tekist á við einir eða fleiri saman. Tómas nefnir að tveir nemendur fylgist að handjárnaðir í dag og einn hafi allan gærdaginn verið í skólanum í glímugallanum sínum.

Áskorunarvikan hefur verið haldin undanfarin ár og í fyrra söfnuðu nemendurnir um hálfri milljón króna til styrktar Krabbameinsfélagi Austurlands. Að þessu sinni verða Píeta-samtökin, sem vinna gegn sjálfsvígum og sjálfsskaða, styrkt.

„Við vonum að þetta gangi vel en erum aðeins að bíða eftir að boltinn fari að rúlla. Þá vindur þetta upp á sig,“ segir Tómas. Ekki er ákveðið hvenær áskorunum ljúki því mögulega standa þær fram í næstu viku.

Fylgjast má með áskorunum á Instagram-reikningi NME og taka þátt í söfnuninni í gegnum Kass.

Nemendaráð ME 2022-23. Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.