Nemendur í VA mæta í netstofur

Þrátt fyrir að framhaldsskólum hafi verið lokað til að hindra útbreiðslu kórónaveirunnar halda nemendur Verkmenntaskóla Austurlands áfram að mæta í tíma samkvæmt stundatöflu. Það gera þeir í gegnum netkennslustofu. Skólameistari segir fyrirkomulagið ganga vel, aðeins sé eftir að finna lausn fyrir félagslífið.

„Við tókum starfsdag á mánudag og á þriðjudagsmorgun hrökk hér í gang vel smurð vél. Ég er með gæsahúð yfir hversu vel þetta hefur gengið og montin af starfsfólki og nemendum,“ segir Lilja Guðný Jóhannesdóttir, skólameistari VA.

Samkvæmt samkomubanninu, sem gekk í gildi á mánudag, fá nemendur ekki að mæta í skóla. Lilja segir skólann hafa starfað eftir viðbragðsáætlun skólanna í nokkurn tíma. Þá hafi verið byrjað að undirbúa viðbrögð og sú vinna eflst eftir að lýst var yfir neyðarástandi föstudaginn 6. mars.

„Við nýttum síðustu viku til að undirbúa okkur vel. Við vorum búin að ákveða hvernig við ætluðum að kenna. Við ákváðum að gera það eftir stundarskrá og þannig að nemendur kæmu inn í stofur. Síðan völdum við kerfi, þjálfuðum kennara og svo nemendur.“

Fylgst með mætingu nemenda

Kerfið sem VA notast við heitir Big Blue Button eða Blái hnötturinn. Nemendur skrá sig inn í kerfið úr tölvunni heima hjá sér og þá opnast fyrir þeim kennslustofan. Þar eru allir í mynd, einnig kennarinn, sem getur sýnt glærur og dæmi á snertiskjá. Nemendur geta síðan haft samskipti sín á milli og kennarinn talað við eintaka nemendur ef þarf, eða skipt þeim upp í hópa.

„Við lögðum upp með að halda nemendum í takti, virkni og félagslegum samskiptum. En auðvitað verður þetta erfiðra eftir því sem ástandið varir lengur.“

Merkt er við mætingu nemenda sem Lilja segir skipta miklu máli. Í lok dags er farið yfir mætingu nemenda og hægt að grípa inn í ef í óefni stefnir. „Í áætlunum okkar er gert ráð fyrir að styðja við nemendur í mikilli brottfallshættu. Við byrjuðum strax í gær að bregðast við og getum hnippt í námsráðgjafa ef þarf. Nemendur sem eiga bókuð viðtöl geta mætt. Það er eðlilegt fyrir þau að eiga samskipti í gegnum tölvu.“

Á ekki að bitna á útskrift

Erfitt er þó að kenna hreinræktaða verknámstíma í gegnum fjarkennslu. Í aðdraganda samkomubannsins voru nemendur hvattir til að nýta sína verknámstíma sem best. Á meðan það stendur er tíminn nýttur til að kenna bóklega hlutann en verklegi hlutinn verður kenndur þegar því verður aflétt.

„Þetta er vissulega erfiðast gagnvart hreinum verknámsáföngum en við höfum líka fundið lausnir. Nemendur í hárgreiðslu fóru heim til sín með hausa. Kennarar í rafiðninni hafa breytt verkefnum. Fólk hugsar hlutina upp á nýtt,“ segir Lilja.

Ef allt gengur eftir eiga raskanirnar nú ekki að hafa áhrif á útskrift. „Ef við komumst inn eftir páska þá á ekki að verða rask. Ef ekki þá skoðum við málin, þetta verður látið ganga upp.

Starfsfólk má mæta í skólann en þarf að virða takmörkun um fjarlægðir og getur þannig ekki safnast saman á kaffistofu. Margir vinna að heiman og kennarar halda samskiptum sín á milli í gegnum Microsoft Teams. „Þetta gengur vel. Við eigum bara eftir að finna hvernig við höldum uppi í félagslífinu,“ segir Lilja Guðný.

Frá íslenskutíma á Bláa hnettinum og kaffistofu kennara á  Microsoft Teams.


va kaffistofa 20200318

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.