Nemendur í ME efndu til loftslagsmótmæla

Nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum höfðu frumvæði að loftslagsmótmælum sem fram fóru á lóð skólans í hádeginu. Mótmælin eru hluti af alþjóðlegri hreyfingu til að þrýsta á aðgerðir til að hægja á loftslagsbreytingum.

„Í kjölfar mótmæla víða um heim fannst okkur rétt að láta líka í okkur heyra,“ segir Rán Finnsdóttir, ein þeirra sem skipulögðu mótmælin.

„Okkur fannst ganga vel. Bæði nemendur í ME og þeir sem voru hér í heimsókn sýndu áhuga. Ég held að ungir krakkar hafi almennt áhuga að breyta og hafa áhrif.

Það er erfitt að gera nokkuð þar sem við höfum ekki valdið en við getum látið í okkur heyra. Ákall okkar gengur út á að þeir sem valdið hafa taki eftir að við viljum breytingar og okkur er ekki sama.

Það þarf að gera eitthvað ef við viljum að við og næstu kynslóðir eigi góða framtíð,“ segir Sigurlaug Eir Þórsdóttir sem einnig kom að undirbúningi mótmælanna.

Nemar af öllu Austurlandi

Það var í ágúst síðastliðnum sem hin 16 ára gamla Greta Thunberg skrópaði í skólanum til að mótmæla aðgerðaleysi sænskra stjórnvalda í loftslagsmálum við sænska þingið. Greta hefur síðan farið víða til að vekja athygli á málstaðnum og nemendur víða um heim hafa tekið undir mótmæli hennar. Meðal annars er mótmælti á hverjum föstudegi í Reykjavík.

Fjölmennt var í ME í dag þar sem nemendur úr elstu bekkjum grunnskóla af öllu Austurlandi voru þar í skólakynningu. Þeir voru einnig á leið á forkeppni Skólahreysti sem haldin var í íþróttahúsinu Egilsstöðum eftir hádegi.

„Okkur fannst dagurinn í dag henta vel því hingað voru komnir nemar af öllu Austurlandi. Þannig fengum við bæði fleiri en gátum upplýst grunnskólanema sem þekkja mögulega ekki til loftslagsmótmælanna,“ útskýrir Rán.

Meðvituð um áhrif neyslunnar

Þær Sigurlaug segja virka umræðu meðal nemenda í ME um hvað hægt sé að gera til að stemma stigu við loftslagsbreytingum.

„Ég sit í umhverfisnefnd skólans og þar höfum við mest unnið með flokkun. Það hefur borði árangur, við höfum tekið allar ruslafötur úr skólastofum og erum með þær á göngunum til að þrýsta á fólk að flokka,“ segir Rán.

Að frumkvæði nefndarinnar er skólinn að skoða þátttöku í Grænum skrefum, verkefni sem miðar að því að efla vistvænan rekstur ríkisins.“

Nemendurnir sjálfir sýna líka frumkvæði. „Margir eru mjög passasamir á að flokka rusl. Sumir kaupa frekar notuð föt en frá fyrirtækjum sem starfa í skynditísku eða kaupa íslenskar vörur því þeir hugsa um kolefnissporið. Maður hefur séð miklar breytingar,“ segir Sigurlaug.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar