Orkumálinn 2024

Neitunarvald í höndum íbúa Fljótsdalshéraðs

Staðfest hefur verið að kosið verður um sameiningu Djúpavogshrepps, Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Borgarfjarðarhrepps laugardaginn 26. október. Tvo þriðju hluta íbúa eða sveitarfélaganna þarf til að samþykkja sameininguna sem tæki formlega gildi næsta vor.

„Það er mjög góð tilfinning að málið sé komið þetta langt. Það hefur verið mjög ákveðinn vilji í að reyna að klára þetta innan ársins. Það er breiður hópur sem myndar samstarfsnefnd sveitarfélaganna og ég held að hún sé búin að vinna grunninn nokkuð vel,“ segir Björn Ingimarsson, formaður nefndarinnar og bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði.

Samstarfsnefndin lagði dagsetninguna til í lok maí og hefur hún nú verið staðfest eftir tvær umræður í hverri sveitarstjórn. Björn segir þá umræðu hafa gengið vel og ekkert óvænt komið þar fram, en sveitarstjórnirnar samþykktu öll dagsetninguna.

Íbúafundir í lok september

Samstarfsnefndin kom saman til fundar á þriðjudag og hittist væntanlega aftur í lok næstu viku. Þá er áformaður fundur í ágúst. Aðalefni þessa funda er hvernig staðið sameiningarkostirnir verða kynntir íbúum.

Á fundinum á þriðjudag var ákveðið að íbúafundir verði haldnir síðustu vikuna í september. Samstarfsnefndin ásamt sveitarfélögunum mun halda utan um kynningarnar á fundunum. Þar verða kynntar formlegar og endanlegar sameiningartillögur, en þær byggja á vinnu samstarfsnefndarinnar og málefnahópa sem störfuðu á hennar vegum.

Um mánaðarmótin ágúst/september verður kynningarefni sent inn á öll heimili í sveitarfélögunum. Til stendur að fá utanaðkomandi aðila til að vinna það efni með nefndinni.

Tveir þriðju hlutar til samþykktar

Kosið verður í hverju sveitarfélagi fyrir sig laugardaginn 26. október. Einfaldur meirihluti ræður í hverju sveitarfélagi. Verði tillagan ekki samþykkt í öllum sveitarfélögum er heimilt að sameina þau sveitarfélög þar sem íbúar samþykktu sameiningu, án frekari kosninga, að því gefnu að þau hafi samanlagt 2/3 íbúa og að 2/3 sveitarfélaganna samþykki.

Á Fljótsdalshéraði búa 3600 af um 4900 íbúum væntanlegs sveitarfélags. Það þýðir að tæknilega hafa íbúar Héraðs örlög sameiningarkosningarinnar í hendi sér. Ef þeir kjósa gegn henni fellur hún alls staðar. Hægt verður að sameina þótt hún verði felld í einhverju af hinum sveitarfélögunum.

Yfirgnæfandi jákvæðni

Björn segir að þeir kjörnu fulltrúar sem að sameiningarvinnunni hafi komið til þessa hafi ekki orðið varir við annað en jákvæði í hennar garð. „Við höfum fundað á vinnustöðum og víðar til að heyra viðhorf fólksins. Auðvitað koma upp efasemdaraddir og við reynum að bregðast við þeim ábendingum sem við fáum en það sem við heyrum er yfirgnæfandi jákvæðni. Við reyndum mjög ákveðið að kalla eftir veikleikum eða neikvæðum þáttum á íbúafundunum í vor, en það var frekar þannig að fólk vildi þar kafa dýpra í málin.“

Ef sameiningin verður samþykkt tekur við vinna við að skrifa samþykktir fyrir nýtt sveitarfélag og ganga frá tæknilegum atriðum. Að sögn Björns er horft til þess að kjósa í nýja sveitarstjórn næsta vor og sameiningin taki gildi að henni lokinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.