NAUST vill herða eftirlit með fuglaveiðum: Aldrei mistök að skjóta fálka

naust_stjorn_2012_web.jpg
Félagar í Náttúruverndarsamtökum Austurlands (NAUST) skora á stjórnvöld að herða eftirlit með fuglaveiðum. Þeir lýsa yfir áhyggjur sínum af drápum á friðuðum fuglum og segja heiður veiðimanna í veði verði ekki komið í veg fyrir þau.

„Að skjóta fálka er aldrei mistök. Fjórðungur fálka sem finnast dauðir á Íslandi eru með högl í sér sem væntanlega er aðeins brot af þeim fjölda fálka sem skotnir eru þrátt fyrir algera friðun,“ segir í ályktun frá aðalfundi samtakanna.

Bent er á að áhugi á skotveiðum hafi vaxið gríðarlega síðustu ár en á sama tíma hafi dregið úr eftirlitinu og það sé nær ekkert með fuglaveiðum. 

„NAUST leggur til að koma upp kerfi eftirlitsmanna með fuglaveiði sem hafi heimild til að skoða afla og gera upptæk skotvopn finnist friðaðar tegundir í afla. Þá leggur NAUST áherslu á að þeir sem stoppa upp fugla stoppi ekki upp friðaða fugla heldur tilkynni til lögreglu þau hræ sem þeim berast. Naust skorar á stjórnvöld að efla eftirlit með fuglaveiðum að írskri fyrirmynd og herða viðurlög og sektir við brotum á þeim.“

Þetta á ekki aðeins við um fálka, heldur fleiri friðaðar tegundir sem hafa fundist skotnar þar á meðal bjartmáfa, skúma og ýmsar andategundir. Áskoruninni er einnig bent til veiðimannanna sjálfra.

„Að skjóta friðaða fugla er ekki veiði heldur dráp sem kemur óorði á alla veiðimenn. Reglan hlýtur ávalt að vera sú að skjóta ekkert sem ekki er örugglega greint til tegundar.

Heiður veiðimanna er að veði ef ekki verður komið í veg fyrir veiðar á friðuðum fuglum. Naust hvetur því stjórnvöld, sveitafélög, landeigendur, skotveiðifélög, uppstoppara og skotveiðimenn að taka höndum saman um að efla veiðisiðferði og virðingu gagnvart náttúrunni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.