Nauðsynlegt að sækja frekari tekjur til ríkisins

Frambjóðendur til sveitarstjórnar Múlaþings eru sammála um að sveitarfélög eigi að fá meiri hlutdeild í tekjum sem skapast á þeirra svæði en renna í dag til ríkisins, svo sem af fiskeldi og orkuvinnslu. Stærri hagræðingaraðgerðir eða lækkun gjalda á íbúa eru ekki á dagskránni.

Þetta kom fram á framboðsfundi sem Austurfrétt og Múlaþing stóðu fyrir á laugardagskvöld þar sem fulltrúar allra framboða sátu fyrir svörum.

Ríflega 200 milljóna tap var á A-hluta sveitarsjóð, þeim hluta sem fjármagnaður er með skatttekjum í fyrra, sem var þó minni en reiknað var með. Ekki var að heyra á frambjóðendum að þeir hygðust skera niður til að láta enda ná saman. Samhljómur var um að auka þyrfti tekjur til að geta ráðist í framkvæmdir og bætt þjónustu við íbúa. Með því myndi íbúum fjölga sem aftur eykur tekjurnar.

„Okkar forgangsatriði í fjármálum eru ábyrgð, auknar tekjur og öflug uppbygging. Það er margt sem þarf að gera í uppbyggingu og til þess verðum við að auka tekjugrunninn,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks. Ívar Karl Hafliðason, sem skipar annað sætið, sagði ekki framundan að fara með niðurskurðarhnífinn á loft en skoða þyrfti hvernig ná mætti fram því besta úr starfsfólki Múlaþings.

Eyþór Stefánsson, annar maður á Austurlistanum, sagði vitlaust gefið milli ríkis og sveitarfélaga. „Tilvist fiskeldissjóðs og að fasteignagjöld virkjana renni í bákn suður í Reykjavík, sem sveitarfélögin þurfa síðan að betla úr, fer í mig.“

Markmið sameiningar að auka þjónustu

Hildur Þórisdóttir, oddviti listans, sagði að við tilurð Múlaþings hefði verið gengið út frá því að starfsfólk héldi vinnu sinni því markmiðið hefði verið að bæta þjónustuna. Hún ítrekaði að ekki stæði til að sameina grunnskóla.

„Það er glórulaust að þessar tekjur renni ekki til sveitarfélaganna. Og nú, þegar ferðaþjónustan er að sigla aftur á blússandi ferð, er gistináttagjaldið ekki enn komið til sveitarfélaganna“, sagði Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hann sagði spurningarnar um fjármálin ekki góðar því framboðin væru of sammála um þær sem væri lítil skemmtun fyrir áhorfendur.

Vilhjálmur Jónsson, sem skipar annað sætið hjá Framsóknarflokki, benti á að í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins væri reiknað með að reksturinn kæmist á rétt ról á næst ári. Framboðið horfi ekki til sérstakrar hagræðingar en halda þurfi vel á spilunum. Þá hafi forsenda sameiningar verið að styrkja þjónustuna.

Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, sagði að þegar fjármagn væri takmarkað þyrfti að huga vel að forgangsröðun. Þar vilji flokkurinn hafa skólana fremsta í flokki. Hann nefndi einnig að til að fjölga íbúum þyrfti að tryggja góðar lóðir og hvatti til þess að skipulagt yrði svæði, hinu megin Norðfjarðarvegar frá Selbrekku. Eins gæti skortur á verktökum og hækkun hrávöruverðs reynst sveitarfélaginu lán í óláni því svigrúm myndaðist fyrri sum verkefni ef önnur frestuðust. Hann sagði að þótt að við sameiningu hefði stefnan ekki verið sett á hagræðinu mætti horfa til samlegðaráhrifa eða hvort ráða þyrfti nýja starfsmenn þegar eldri hættu því launakostnaðurinn væri langstærsti útgjaldaliður sveitarfélagsins.

Ekki svigrúm til að lækka fasteignagjöld

Hluti ástæðunnar fyrir því að afkoma sveitarfélagsins varð betri en óttast var um tíma eru vaxandi tekjur. Þær helgast meðal annars af því að fasteignagjöld hafa hækkað, en þau að miklu leyti hlutfall sem sveitarfélögin ákveða að innheimta af fasteignamati, sem jafnt og þétt hefur hækkað síðustu ár. Þá voru leikskólagjöld í könnun ASÍ í síðustu viku með þeim hæstu á landinu.

Frambjóðendur voru samt ekki á því að lækka álögurnar. Tvær meginástæður eru fyrir því. Annars vegar að fullnýti sveitarfélög ekki tekjustofna sína skerðast framlög til þeirra úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Hins vegar ástæðan sem áður hefur komið fram, að sigrúm í rekstri sveitarfélagsins er lítið og vilji til að halda uppi þjónustu.

„Framlegðin í A-hluta er helmingi og lág. Við viljum fjölga íbúum með að hafa tilbúið húsnæði og framúrskarandi þjónustu. Við gerum það ekki með að lækka tekjur sveitarfélagsins,“ sagði Hildur. Vilhjálmur sagði ekki tímabært að ræða lægri álögur meðan reksturinn væri jafn þungur og hann er í dag. Hins vegar þurfti einhvern tíma að takast á við þróun fasteignamats og gjalda.

„Ef skerum niður tekjustofna þá skerum við líka niður þjónustuna,“ svaraði Þröstur. Hann bætti við að Múlaþingi þyrfti á kjölfestufyrirtækjum að halda og til þess þyrfti að auka hvata og styrkja þjónustu, til dæmis tryggja raforku með nýrri virkjun til að losa Austurland úr viðjum eyjareksturs í raforkukerfinu.

Pétur Heimisson frá Vinstri grænum kom inn á að sækja þyrfti á ríkið en bætti við að framboðið sæi ekki fram á að lækka umrædd gjöld beint. Það hefði hins vegar á stefnuskránni að gera leikskóla gjaldfrjálsa til lengri tíma. Fyrsta skrefið í því væri að auka systkinaafslátt og fella niður gjöld fyrir annað barn á kjörtímabilinu. Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig hækka systkinaafslátt og halda öðrum gjöldum óbreyttum meðan Framsóknarflokkurinn vill lækka gjöld fyrir elstu nemendur leiksólans.

Lofa ekki meiru en innistæða er fyrir

Frambjóðendur voru á því að stefnuskrár framboða þeirra væru hófsamar og innistæður fyrir þeim í fjárhag Múlaþings. „Við stígum varlega til jarðar í kosningaloforðum og get sagt öðrum framboðum til hróss að þau hafa gert slíkt hið sama.“ Fulltrúar VG og Sjálfstæðisflokks sögðust gera sér grein fyrir að lækkun systkinaafsláttar kostaði sitt en vilji væri til að létta á barnafólki.

Helgi Hlynur bætti einnig við að því fylgdu aukin útgjöld að standa við lögbundnar skyldur í málefnum fatlaðs fólks. Þar væri ekki um kosningaloforða að ræða heldur að uppfylla lög.

Örn Bergmann Jónsson frá Miðflokki sagði framboðið ekki lofa neinu nema innistæða væri fyrir því og Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks, að stefnuskrá framboðsins væri sett fram sem raunhæf markmið þar sem hún útheimti ekki verulega aukinn kostnað.

Heyra má nákvæmari svör framboðanna, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar misritaðist að Sjálfstæðisflokkurinn vildi lækka systkinaafslátt. Hið rétta er að flokkurinn vill hækka hann.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.