Orkumálinn 2024

Nauðsynlegt að hjálpa gróðrinum að standast áfokið

Töluvert áfok hefur verið á gróður á austurströnd Hálslóns síðustu tvö sumur. Þær varnir sem komið hefur verið upp virka en meira þarf til. Nauðsynlegt er að styrkjar gróður á svæðinu til að standast áfok úr lónsstæðinu. Nóg af fokefnum eru á svæðinu þegar vatnsstaðan er lág í lóninu.

Í skýrslu Landgræðslunnar, sem vaktar áfok úr lónsstæðinu fyrir Landsvirkjun, frá í fyrra kemur fram að áfokið þá hafi verið mest við austurströnd lónsins enda suðvestanáttir ríkjandi þá.

Áfokssvæði við Lindabungu hafi stækkað og mældist 5,8 hektarar og sömu sögu var að segja við Kofaöldu þar sem fokið náði yfir 8,4 hektara. Á báðum svæðum mátti greina allþykka sandkafla á nokkrum stöðum.

Í Kringilsárrana hafði áfok minnkað milli ára. Nyrst í Rananum, þar sem landbrot hefur verið hvað mest, er töluvert af lausum sandi sem gæti fokið. Annars staðar í lónsstæðinu virðist foksandur vera að minnka.

Minna fok en í fyrra

Svæðið var skoðað fyrir tveimur vikum. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun bárust áfoksefni úr lónsstæðinu við austurströndina, þó ekki jafn mikið og í fyrra. Undir þetta tekur Guðrún Schmidt, starfsmaður Landgræðslunnar, en bendir á að bætt hafi í á nýjum svæðum að norðanverðu. Þótt áfokið austan Hálslóns nái ekki jafn langt inn í landið og í fyrra sé sandurinn sums staðar töluvert þykkur.

Samkvæmt virkjanaleyfinu eiga fokefni úr lónsstæðinu ekki að berast inn á gróðurlínu lengra en sem nemur skilgreindri varnarlínu. Fari fokið lengra þarf að bregðast við. Í kringum lónið eru ýmsar varnir, svo sem fokgirðingar og skurðir. Í svari Landsvirkjunar við fyrirspurn Austurfréttar segir að reynslan sýni að gryfjurnar geti tekið við efni sem sé á ferðinni. Þá voru í Kringilsárrana settar upp áfoksgirðingar til að fanga sand.

„Þær varnaraðgerðir sem eru hjálpa mikið en samt er áfok yfir þessa línu þannig að vandamálið er enn til staðar. Skurðirnir hafa til dæmis sannað mikilvægi sitt en þeir fyllast og því þarf að moka reglulega upp úr þeim, segir Guðrún.

Árið 2009 var byrjað að græða upp lítt gróna mela austanmegin Hálslóns í þeirri von að gróður þar gæti bæði staðist og bundið áfok úr lónsstæðinu.
Eftir að áfok barst yfir varnarlínuna hefur verið brugðist við með aukinni áburðargjöf á áfokssvæðunum til að styrkja þann gróður, svo hann eyðist ekki og geti hindrað hindra sandinn í að fara enn lengra. Í minnisblaði frá Landgræðslunni frá í fyrra er hvatt til þess að þau svæði sem verst hafi orðið úti verði styrkt sérstaklega næstu tvö til þrjú ár.

„Við sjáum að uppgræðslan sem unnið hefur verið í sannar sig,“ segir Guðrún. „Hún virðist skipta miklu máli til að stöðva áfokið. Þess vegna þarf að styrkja gróðurinn þannig hann sé bæði betur í stakk búinn að standast áfok og stöðva að það fari lengra,“ segir Guðrún.

Margt getur gerst á einum degi

Í svari Landsvirkjunar segir að lítið hafi verið um áfok við Hálslón sumrin 2018 og 19. Í lok júní í fyrra hafi gert þurrt og hvasst veður sem hafi leitt til áfok hafi borist inn á gróðurlendi í meira mæli en áður. Í kjölfarið var sérstök viðbragðsáætlun virkjuð og bætt við sjö tonnum af áburði á svæðin.

Fylgst er með áfokinu bæði með vettvangsferðum og sumrin og sjálfvirkum mælibúnaði. Mest er hætta á því þegar þurrt og hvasst er í veðri. „Áfokið er misjafnt eftir árum en það getur margt gerst á einum þurrum og vindasömum degi,“ segir Guðrún.

Júnímánuður hefur verið afar þurr á svæðinu. Guðrún segir ljóst að búið sé að vera áfok á svæðinu, á sumum svæðum meira en minna á öðrum. Ljóst sé hins vegar að vatnsskorturinn hefur gert gróðrinum erfitt uppdráttar.

Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun stendur í ár til að hreinsa úr sandgryfjum og fjarlæga sand úr vegöxlum þar sem hægt er. Farið verði frekar yfir mótvægisaðgerðir þegar samantekt Landgræðslunnar liggi fyrir.

Sandgryfja við Hálslón í júlí í fyrra. Mynd úr skýrslu Landgræðslunnar.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.