Nauðsynlegt að bæta GSM samband fyrir sjómenn

Ljósleiðaratenging til Mjóafjarðar mun bæta verulega öryggi á svæðinu að mati forstjóra Neyðarlínunnar. Enn eru eftir svæði á Austfjörðum þar sem brýnt er að efla fjarskipti til að bæta öryggi bæði íbúa og þeirra sem um fara.

„Það er mjög skemmtilegt að sjá þetta gerast. Ég var svartsýnn á tímabili,“ sagði Þórhallur Ólafsson, forstjóri Neyðarlínunnar, þegar þeim áfanga var fagnað á föstudag að ljósleiðari væri kominn til Mjóafjarðar. Brekkuþorp varð þar með síðasti byggðakjarninn á landinu til að fá slíka tengingu.

Mjófirðingar fá þar reyndar tvo strengi fyrir einn, því einnig hefur verið lagður nýr þriggja fasa rafstrengur þangað úr Seyðisfirði, sem verður fullkláraður næsta sumar. RARIK hefur að mestu séð um verkið en Neyðarlínan einnig komið að því með stuðningi sveitarfélaga og ríkisins.

Þá er ótalið fjarskiptafyrirtækið Míla sem yfirtekur ljósleiðarana eftir að opinberum stuðningi lýkur. Fram kom í máli Þórhalls á föstudag að Neyðarlínan og Míla hafi að undanförnu lagt um 400 km af fjarskiptastrengjum í samvinnu. „Það hefði ekkert gerst nema í samvinnu þessara aðila. Það lögðust allir á árarnar,“ sagði Þórhallur.

Verkinu er þó ekki þar með lokið, stefnt er að því að halda áfram yfir til Norðfjarðar þannig að Neskaupstaður verði með tengingu í tvær áttir. Slíkt er brýnt því tenging Norðfjarðar við Reyðarfjörð rofnaði nýverið í fjóra tíma. Þar með duttu út öll fjarskipti í Neskaupstað. Stefnt er á að sú tenging verði tilbúin eftir 2-3 ár.

Þá nefndi Þórhallur að til standi að leggja ljósleiðara til Njarðvíkur til að koma þar á GSM sambandi. „Við höfum lent í því tvisvar að fólk hafi strandað á leiðinni niður í Njarðvík og því verið naumlega bjargað því ekki var samband til staðar til að kalla á aðstoð.“

Neyðarlínan rekur bæði Tetra-fjarskiptakerfið og vaktstöð siglinga. Þótt búið sé að tengja Brekkuþorp er enn eftir að finna lausn á hvernig hægt sé að tryggja netsamband út á Dalatanga og þar með öflugri fjarskipti fyrir sjófarendur.

„Sjómenn vilja helst nota GSM síma en ekki rás 16. 95% allra aðstoðarbeiðna af sjó koma í gegnum GSM. Það eru dauð svæði meðfram ströndinni. Við þurfum að skoða þau.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.