Nálægð við hálendið og Stuðlagil kostir Skjöldólfsstaða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. mar 2023 17:01 • Uppfært 03. mar 2023 17:02
Ferðaþjónustan á Skjölólfsstöðum á Jökuldal er komin í hendur nýrra eigenda. Þeir segja engar breytingar í farvatninu allra næstu vikur heldur byggja áfram á góðum rekstri í nálægð við Stuðlagil og hálendið.
Félagið Remote Hotels er kaupandi ferðaþjónustunnar en að baki því standa Friðrik Árnason af Hótel Breiðdalsvík, Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök baths og hjónin Arngrímur Viðar Ásgeirsson og Þórey Sigurðardóttir frá Álfheimum á Borgarfirði.
„Við ætlum að byggja upp öfluga ferðaþjónustu á þeim grunni sem þarna er, flottri gisti- og veitingaaðstöðu sem er nálægt góðum leiðum inn á hálendið og Stuðlagili. Þarna er hægt að tengja saman Egilsstaði, Vök, Mývatn og hálendið,“ segir Friðrik.
Aðalsteinn Jónsson og Ólafía Sigmarsdóttir hafa rekið þar ferðaþjónustu undir merkjum Á hreindýraslóðum frá árinu 2006. Húsnæðið var upphaflega byggt á árunum 1945-7 undir Skjöldólfsstaðaskóla sem rekinn var til ársins 1999. Í húsnæðinu er í dag gistirými fyrir 45 manns í samtals 20 herbergjum þar sem helmingurinn er með sér baðherbergi.
„Við opnum þarna 1. apríl. Það verða engar breytingar strax heldur komum við okkur fyrir í rólegheitum. Við ætlum að læra á umhverfið, kynnast fólkinu í nágrenninu og vinna í sátt við samfélagið. Mögulega með haustinu förum við að þróa staðinn áfram með okkar hugmyndum. Við sjáum tækifæri til að byggja þarna upp flotta gisti-, veitinga- og afþreyingaraðstöðu.“
Á staðnum er líka sögufræg sundlaug, sem upphaflega var á Egilsstöðum en var flutt inn í Jökuldal árið 1996. Friðrik segir óráðið hver framtíð hennar verði, hún sé vissulega í lagi en rekstrarkostnaður sundlauga hafi aukist síðustu ár með hækkandi orkuverði og vaxandi kröfum um eftirlit.