Næst hlýjasti maímánuður sögunnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. jún 2023 11:56 • Uppfært 06. jún 2023 12:50
Nýliðinn maímánuður er sá næst hlýjasti sem mælst hefur á Egilsstöðum síðan mælingar hófust þar. Hæsti meðalhiti yfir landið mældist á Hallormsstað.
Þetta kemur fram í yfirliti Veðurstofu Íslands fyrir mánuðinn. Almennt var mánuðurinn hlýr þótt lítið hafi verið um sól á höfuðborgarsvæðinu en þeim mun meira um rigningu.
Á Egilsstöðum var meðalhitinn 8,1 gráður, sem er 2,6 gráðum yfir meðaltali síðustu ára. Jafnframt er það næst hæsti meðalhiti sem þar hefur mælst í 69 ára sögu veðurmælinga.
Veðurmælingar eiga sér lengri sögu á bæði Dalatanga og Teigarhorni en mánuðurinn var þar samt óvenju hlýr. Á Dalatanga var meðalhitinn 6,1 gráða sem kemur mánuðinum í 4. sæti í 86 ára mælingasögu en 6,6 gráður á Teigarhorni sem er fjórði hæsti meðalhiti í maí í 151 ára mælingasögu.
Meðalhiti mánaðarins var þó hæstur á Hallormsstað, 8,3 gráður. Hæsti hitinn var hins vegar á Kvískerjum í Öræfum, 22 gráður, rétt í lok mánaðarins en næst hæsti á Egilsstöðum eða 21 gráða.
Að sama skapi var maí afar þurr. Fram kemur í yfirlitinu að ekki hafi mælst minni úrkoma á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði síðan mælingar hófust þar um miðjan tíunda áratug síðustu aldar.
Almennt er veðurspáin á svipuðum nótum svo langt sem hún nær, hlýtt og sólríkt en þurrt, einkum á Fljótsdalshéraði.