Náðu hvorki gítarnum né skjávarpanum

„Við erum tryggð en ekki fyrir þessu innbroti þar sem ekki voru rimlar fyrir gluggunum,“ segir Breiðdælingurinn Herdís Hrönn Árnadóttir sem rekur barinn Nostalgia á Tenerife, en þjófar létu greipar sópa á staðnum fyrr í vikunni.


Herdís Hrönn og maður hennar, Sævar Lúðvíksson, hafa undanfarin tvö ár rekið barinn sem nýtur mikilla vinsælda, en hann gengur í daglegu tali undir nafninu „Íslenski barinn“. Herdís sagði lesendum Austurgluggns og Austurfréttar á sínum tíma söguna af því hvernig reksturinn kom til.

„Þó svo að málverkin séu ferlega flott þá tel ég innbrotið ekki tengjast tilkomu þeirra á staðnum,“ segir Herdís, en innbrotið var framið nokkrum klukkustundum eftir að málverkasýning útvarpsmannsins góðkunna, Guðna Más Hennings, var sett upp á staðnum, en sjálfur býr hann á eyjunni.

Eins og segir í inngangi var brotist inn um glugga á staðnum. „Almennt virðist ekki mikið um innbrot í kringum okkur en þessa vikuna var meðal annars reynt að brjótast inn í nuddstofu og ljósmyndavöruverslun sem er i sama kjarna og barinn okkar.

Við höfum ekki orðið fyrir þessu áður, en höfum þó ítrekað lent í því að „tips-bauknum“ okkar sé stolið. Svo var „Indriða-takkanum“ reyndar hnupplað í fyrra, en það var kvörtunartakkinn okkar. Það voru ekki verðmæti en við söknum Indriða mikið,“ segir Herdís Hrönn.

Verkum Guðna Más var ekki stolið
Fjórum stórum sjónvörpum, sjónvarpsboxi, búðarkassanum og rafmagnshjóli með þremur dekkjum var meðal þess sem þjófarnir höfðu með sér frá Nostalgiu. Auk þess var tækjum hent til og frá og þau eyðilögð.

„Við erum enn að reyna að átta okkur á því hvað var tekið, en teljum að öll verk Guðna séu á staðnum, en hann á eftir að koma sjálfur og fara yfir það til þess við getum sagt það með vissu.“

Herdís segir að öryggisvörður í húsinu hafi látið lögreglu vita en þeim Sævari var þó ekki greint frá innbrotinu fyrr en þau mættu í vinnu seinnipartinn. Það hefur gengið illa að tilkynna þetta til lögreglu sem hefur sent okkur fram og til baka. Mér skilst að eitthvað af sjónvörpum hafi fundist í klettunum hér fyrir neðan,“ segir Herdís Hrönn.

Þurftu Herdís Hrönn og Sævar að hafa barinn lokaðan í einhvern tíma á eftir? „Nei, við vorum svo heppin að þeir náðu hvorki gítarnum né skjávarpanum og því höldum við áfram eins og ekkert hafi í skorist.“

 

47680118 928625517328231 1066967496638070784 n

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.