Mótmæla breytingum hjá Landsbankanum

Bæjarstjórn Fjarðabyggðar gagnrýnir styttan opnunartíma tveggja útibúa Landsbankans í sveitarfélaginu. Breytingar eru um leið gerðar á bæði fjölda starfshlutfalli.

Landsbankinn tilkynnti í byrjun mánaðarins um hagræðingar aðgerðir sem hafa það í för með sér að opnunartími útibúanna á Vopnafirði, í Neskaupstað, á Djúpavogi og Breiðdalsvík verður framvegis 12-15.

Um er að ræða talsverða styttingu á opnunartíma en í tilkynningu bankans segir að verið sé að aðlagast breyttum aðstæðum í bankaþjónustu þar sem viðskiptavinir kjósi frekar að nota starfrænar lausnir fremur en fara í útibú.

Hjá bankanum fengust þær upplýsingar að engar breytingar yrðu á högum starfsmanna á Vopnafirði. Á Breiðdalsvík, Djúpavogi og í Neskaupstað var starfshlutföllum breytt en fjöldi starfsfólks er óbreyttur. Einn starfsmaður lætur hins vegar af störfum á Reyðarfirði við breytingarnar.

Fráfarandi bæjarstjórn Fjarðabyggðar bókaði mótmæli við breytingunum á síðasta fundi sínum en þar er lýst yfir vonbrigðum með styttan opnunartíma og uppsagnir.

„Bæjastjórn ætlar ekki að draga í efa að hagræðingar sé þörf í bankakerfinu hér á landi en finnst skjóta skökku við að fara í þessar aðgerðir á landsbyggðinni þar sem Landsbankinn hefur fækkað útibúum sínum, fækkað störfum og skert þjónustu verulega á síðustu árum. Á sama tíma hafa verkefni sem óháð eru staðsetningu ekki verið færð til Fjarðabyggðar.

Með þessum síðustu aðgerðum Landsbankans er þjónusta hans við íbúa Fjarðabyggðar enn minni en hún var og það átelur bæjarstjórn harðlega og telur einsýnt að Landsbankinn sé ekki lengur banki allra landsmanna heldur einungis höfuðborgarsvæðisins. Slíkt verður að teljast mikil afturför.“

Alls voru gerðar breytingar á opnunartíma ellefu af 37 útibúa bankans. Þá var fækkað störfum í bakvinnslu í útibúinu við Hagatorf og í höfuðstöðvum bankans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar