„Möguleikarnir eru nokkurn veginn endalausir“

Heilbrigðisstofnun Austurlands sýndi nýjan fjarlækningabúnað á náms- og atvinnulífssýningunni Að heiman og heim. Hrönn Garðarsdóttir, yfirlæknir á Egilsstöðum, segir búnaðinn kærkomna viðbót við tækjakost HSA og muni hjálpa til við það erfiða landslag sem stofnunin stríðir við vegna læknaskorts.


Búnaðurinn, sem nefnist Agnes, virkar þannig að þjálfaður starfsmaður getur framkvæmt skoðun á sjúklingi í samvinnu við lækni sem fylgist með í gegnum tölvu.

„Starfsmaður gerir rannsóknir eða mælingar á sjúklingi í samvinnu við lækni eða annan heilbrigðisstarfsmann sem svo fær til sín allar niðurstöður og vinnur úr þeim, en engu máli skiptir hvar sá starfsmaður sem tekur við upplýsingunum, er staðsettur.

Möguleikarnir eru nokkurn veginn endalausir. Við getum mælt lífsmörk sjúklinga og sett þá í mónitor, tekið myndir í góðri upplausn, tekið hjartalínurit og margt fleira. Við getum verið í samstarfi við sérgreinalækna annars staðar á landinu, til dæmis húðlækna, augnlækna, hjartalækna o.s.frv. Gæði linsanna og annarra mælitækja sem fylgja tækinu eru mikil,“ segir Hrönn.

Samstarfssamningur við Heilbrigðisstofnun Suðurlands
Hrönn segir að kveikjan að því að fá slíkan búnað austur sé sú að á Kirkjubæjarklaustri hefur slík tækni verið notuð um árabil með góðum árangri, en þar er aðeins læknir í hlutastarfi.

„Það er af þeirri fyrirmynd sem við fórum að horfa á þetta sem raunhæfan möguleika, en það verður sífellt þyngra að fá lækna til starfa á landsbyggðinni. Við hugsuðum þetta sem kost til þess að aðstoða okkur í því landslagi sem við vinnum í. Þau á Kirkjubæjarklaustri eru í sama vanda og við. Þó hvorki sé verið að glíma við erfiða fjallvegi eða mikla veðurófærð eru það þessar miklu vegalengdir sem þarf að vinna með,“ segir Hrönn.

Haustið 2017 var gerður samstarfssamningur milli HSA og Heiðbrigðisstofnunar Suðurlands um eflingu fjarlækningaþjónustu. Hópar frá báðum stofnunum fóru svo út til Boston til þess að skoða og kynna sér fjarlækningabúnað sem hefur verið notaður víða um heim. Kaup voru fest á fjórum vélum fyrir hvort landsvæði sem komu til landsins í maí. „Það fékkst fjárveiting fyrir þetta verkefni frá velferðarráðuneytinu og fyrir það erum við einstaklega þakklát, auk þess sem við finnum mikinn stuðning úr þeirri átt sem er ómetanlegt.“

Vilja sjá vélarnar á fjarlægari og minni stöðunum
Vélarnar fjórar eru sem stendur staðsettar á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Neskaupstað og á Reyðarfirði. „Við þurfum að byrja á því að læra almennilega á vélarnar, en þær komu í sumar þegar starfsfólk var að fara í frí. Í framtíðinni sjáum við fyrir okkur að þær verði staðsettar á fjarlægari og minni stöðunum hér fyrir austan eða að við fáum fleiri.“

Hrönn segir fjarlækningamöguleikann ekki það eina jákvæða sem vélarnar hafi í för með sér. „Einnig er nú verið að þróa skráningarkerfið sem notað er á öllum heilbrigðisstofnunum hérlendis á þann veg að senn munu þær upplýsingar sem fást í gegnum Agnesi flytjast yfir í gagnagrunninn um sögu viðkomandi sjúklings. Þetta verður því einnig gríðarlega góð viðbót fyrir skráningarkerfið okkar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.