Móðir Jörð sýknuð af ákæru um brot á útlendingalögum

Fyrirsvarsmenn fyrirtækisins Móður Jarðar, sem stundar lífræna ræktun á Vallanesi á Fljótsdalshéraði, voru í vikunni sýknaðir í héraðsdómi Austurlands af ákæru um brot á útlendingalögum með að hafa í vinnu fjóra bandaríska sjálfboðaliða.

Málið hófst sumarið 2016 með eftirlitsferð fulltrúa Vinnumálastofnunar, Ríkisskattstjóra og AFLs starfsgreinafélags á búið. Fyrir dómi báru fulltrúar stofnanna að ferðin hefði verið farin eftir að verkalýðsfélagið vakti athygli á að þar væru sjálfboðaliðar sem að líkindum gengju í störf sem annars væru unnin af launþegum.

Lögfræðingur Vinnumálastofnunar í ferðinni kallaði síðan til lögreglu, að höfðu samráði við yfirmenn sína. Athugasemdirnar snéru að fjórum bandarískum ungmennum sem voru í Vallanesi á vegum samtakanna World Wide Opportunities in Organic Farms (WWOOF) við landbúnaðarstörf án þess að hafa til þess tilskilin atvinnu- og dvalarleyfi.

Ákæra var síðan gefin út af embætti lögreglustjórans á Austurlandi fyrir brot á ákvæðum útlendingalaga sem kveða á um að óheimilt sé að ráða útlending til starfa eða hlutast um að hann flytjist til landsins í því skyni að starfa án atvinnuleyfis. Borgarar frá ríkjum Evrópusambandsins og evrópska efnahagssvæðisins eru undanþegnir þessum lögum. Þegar eftirlitsferðin var farin voru í Vallanesi að auki tveir evrópskir sjálfboðaliðar og fjórir launþegar.

Gestir án vinnuskyldu

Forsvarsmenn Móður Jarðar gáfu þær skýringar að tekið hefði verið á móti sjálfboðaliðum í Vallanesi frá árinu 2001, fyrst að tilstuðlan Bændasamtaka Íslands. Býlið væri skráður gestgjafi á vegum WWOOF sem væri með samning við háskóla í Pennsylvaníu í Bandríkjunum um starfsmenntaáætlun.

Vísað var í reglur WWOOF um að ekki væri heimilt að greiða sjálfboðaliðunum laun, ekki væru samningar milli þeirra og gestgjafa þannig að mynduðust kvaðir. Samtökin ætluðust til að fólk á þeirra vegum hjálpaði til á lífrænum býlum í 5-7 tíma á dag gegn því að fá þar mat og húsnæði.

Þá báru talsmenn Móður Jarðar að sjálfboðaliðarnir hefðu hvorki vinnu- né viðveruskyldu. Þeir sinntu sérstökum verkefnum sem annars væru ekki unnin, svo sem að reita illgresi. Í raun væri um ferðamenn að ræða sem kæmu á býlið til að kynna sér lífræna ræktun.

Án þeirra teldist ræktunin fullmönnuð, í raun væru þeir hrein viðbót og jafnvel íþyngjandi. Þá skilaði vera þeirra ekki efnahagslegum ávinningi.

Ekki í lagi að sjálfboðaliðar sinni störfum sem tengjast rekstri

Í skýrslum eftirlitsaðilanna kemur fram að sjálfboðaliðarnir hafi verið að sinna sömu störfum og launaðir starfsmenn þegar komið var í eftirlitið við að framleiða vöru sem færi á markað.

Tveir starfsmenn Ríkisskattstjóra báru að þeir hefðu aðvarað forsvarsmenn Móður Jarðar um að ekki væri í lagi að sjálfboðaliðar sinntu störfum sem tengdust rekstri fyrirtækisins. Því var fylgt eftir með frekari eftirlitsferðum síðar og reyndust þá engir sjálfboðaliðar við störf.

Sjálfboðaliðarnir sögðust hafa tekið þátt í störfum á akrinum og lært af því. Þeir hefðu unnið frá 9-17 og fengið leiðbeiningar frá eigendum fyrirtækisins. Vinnan hafi hvorki verið krefjandi né bindandi og þeir verið hvattir til að ferðast um nágrennið til að kynnast því. Þeir hafi hins vegar valið sjálfir að vinna enda markmið dvalarinnar í Vallanesi að læra lífræna ræktun.

Dræm gögn rannsakenda

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að forsvarsmenn Móður Jarðar hafi við málsmeðferðina lagt fram mikið af gögnum og gert ítarlega grein fyrir dvöl erlendra ungmenna. Þau hafi haft frumkvæði að dvölinni og sannarlega verið sjálfboðaliðar.

Í skjölum WWOOF, án þess að þau skipti lykilmáli við úrlausn málsins, komi fram að sjálfboðaliðarnir megi ekki koma í stað launaðra verkamenna heldur sé ætlað að veita aðstoð í mannaflsfrekri grein.

Dómurinn bendir hins vegar á að gögn rannsakenda séu mjög takmörkuð og telur að ákæruvaldið hafi ekki náð að hnekkja orðum stjórnenda fyrirtækisins um að starfsemin væru fullmönnuð með fastráðnum starfsmönnum. Þá hafi ákæruvaldið ekki sannað að ungmennin væru ráðin til starfa í þeim skilningi að til vinnuréttarsambands væri stofnað. Þá eigi sjálfboðaliðastörf til sjávar og sveita sér langa sögu hérlendis, sérstaklega þegar tímabundnar annir eiga sér stað.

Dómurinn telur ekki séð að forsvarsmenn Móður Jarðar hafi af ásetningi né stórfelldu gáleysi nýtt sér starfskrafta ungmennanna í skilningi þeirra útlendingalaga sem giltu þegar eftirlitsferðin var farin í júní 2016. Þó er tekið fram að ný lög sem tóku gildi 1. janúar 2017 séu ítarlegri og sé þar sérstaklega komið inn á dvalarleyfi sjálfboðaliða.

Forsvarsmenn Móður Jarðar voru því sýknaðir af öllum ákærum. Málskostnaður verjanda þeirra, 3,3 milljónir króna, greiðist úr ríkissjóði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.