Mjög ósátt við verðmat á eign á Seyðisfirði

Eydís Bára Jóhannsdóttir eigandi hússins Landamót á Seyðisfirði er mjög ósátt við verðmatið á húsinu. Húsið er á hættusvæði eftir skriðurnar fyrir síðustu jól og því verður það keypt af Eydísi þar sem hún má ekki búa í því lengur.


„Nú hef ég fengið verðmatið fyrir Landamótin mín og alveg ljóst að ég er eins langt frá því að vera sátt við matið og hægt er og það hvarflar ekki að mér að samþykkja það,“ segir Eydís í færslu á Facebook.

„Að fá þetta mat er eins og að fá blauta tusku í andlitið og má eiginlega segja að verið sé að senda manni fingurinn. Það verður seint sem ég samþykki mat sem er undir fasteignamati. Það var ekki mín ákvörðun að selja húsið mitt heldur er mér gert að selja það þar sem ekki má búa á þessu svæði eftir skriðuföllin í desember og að mínu mati er ekki sami verðmiði á húsi sem ég ákveð sjálf að selja og húsi sem mér er gert að selja.“

Eydís segir í samtali við Austurfrétt að hún muni ekki tjá sig meira um þetta mál fyrr en hún hafi heyrt nánar frá Múlaþingi. "Þetta er verðmat en ekki kauptilboð enn sem komið er," segir Eydís.

Aðspurð um hvort miklu muni á verðmatinu og fasteignamatinu segir Eydís að um nokkra hundraðþúsund kalla sé að ræða.

Þetta er ekki í samræmi við það sem kom fram í fréttum á Austurfrétt um síðustu áramót.

„Á íbúafundi sem haldinn var milli jóla og nýárs fyrir íbúa Seyðisfjarðar kom fram að skýrar reglur gilda fyrir þá íbúa sem misstu húsnæði sitt eða urðu fyrir tjóni í skriðuföllunnum,“ segir í frétt frá 4. janúar.

„Hulda Ragnheiður Árnadóttir framkvæmdastjóri Náttúruhamfarasjóðs var á fundinum og það kom fram hjá henni að tjón á húsunum yrði bætt í samræmi við skyldutryggingu sem er á öllum fasteignum. Í skyldutryggingu er miðað við brunabótamat. Á móti kemur sjálfsábyrgð upp á 400.000 kr.“

Þá kom fram í máli Hafsteins Pálsson framkvæmdastjóra Ofanflóðasjóðs að venjan hjá sjóðnum við uppkaup á eignum, í tilvikum sem þessum, sé að miða við fasteignamatið.

„Ef þetta verður niðurstaðan þá má Múlaþing hafa skömm fyrir og ég mun óhikað fara með málið lengra og leita réttar míns,“ segir Eydís í lokin á Facebook færslu sinni.

Mynd: Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.