Orkumálinn 2024

Misskilningfarsi í boði leikfélagsins

Leikfélag Fljótsdalshéraðs hefur sýningar á leikritinu Fullkomið brúðkaup eftir Robin Howdon í lok mánaðarins. Guðjón Sigvaldason er leikstjóri. Um er að ræða gamanleikrit eða "misskilningsfarsa" eins og leikstjórinn orðar það.

Ásgeir Hvítaskáld er formaður leikfélagsins og hefur verið það undanfarin þrjú ár. Hann er sjálfur rithöfundur og leikritaskáld og hefur skrifað verk fyrir leikfélagið. Má þar m.a. nefna sveitafarsann Gull í tönn.

„Leikfélag Fljótsdalshéraðs á sér langa og merka sögu,“ segir Ásgeir Hvítaskáld. „Það er komið á sextugsaldurinn og því með elstu áhugamannaleikfélögum landsins.“

Fram kemur í máli Ásgeirs að undanfarin ár hafi leikfélagið verið á hrakhólum með húsnæði eða frá því að Valaskjálf var breytt í hótel.

„Fyrstu sýningar leikfélagsins voru í félagsheimilinu Valaskjálf skömmu eftir að það hús var byggt eða árið 1966,“ segir Ásgeir.

„Sviðið í Valaskjálf var alveg frábært, raunar eitt besta svið á landinu til sýninga á leikritum. Það var því bagalegt fyrir okkur að missa það.“

Fyrsta leikritið sem sett var á svið í Valaskjálf var Skugga-Sveinn og síðan hafa mörg þekkt verk verið sýnd þar í gegnum árin.

„Það hafa margir þekktir leikstjórar komið hingað austur til að leikstýra hópnum í ýmsum verkum,“ segir Ásgeir. „Guðjón Sigvaldason er okkur vel kunnur því hann hefur unnið mikið með félaginu. Það er mikill akkur í að fá Guðjón enda er hann bæði traustur og frumlegur leikstjóri.“

Bíða eftir aðstöðu í Sláturhúsinu

Ásgeir segir að leikfélagið sé að bíða eftir að fá aðstöðu með starfsemi sína í Sláturhúsinu. Á meðan setji félagið upp leikrit sína hér og þar.

„Við vorum á Eiðum í fyrra og erum á Iðavöllum í ár þannig að hópurinn fer víða með leikrit sín þessi árin,“ segir Ásgeir. „En það er búið að lofa okkur varanlegri aðstöðu í Sláturhúsinu og vonandi líður ekki lengur tími þar til við flytjum þar inn.“

Fullkomið brúðkaup verður sumsé sýnt á Iðavöllum og er frumsýningin áformuð þann 31. október n.k.

Söguþráður verksins er í stuttu máli sá að brúðguminn vaknar með konu sér við hlið á sjálfan brúðkaupsdaginn. Konu sem hann hefur aldrei séð áður. Hann flækist inní atburðarás sem hann ræður ekkert við, brúðurin á leiðinni og herbergið í rúst, nakin kona í rúminu og þá er bankað.

Leikarar eru þau Hrefna Hlín Sigurðardóttir, Jón Vigfússon, Sandra Dís Linnet ,Fjóla Egedía Sverrisdóttir, Trausti Dagbjartsson og Lilja Iren Gjerde.

Mynd:  Ásgeir Hvítaskáld á æfingu á leikritinu Fullkomið brúðkaup.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.