Orkumálinn 2024

Minna á stuðning við andlega heilsu og velferð

Ekkert nýtt covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi undanfarinn sólarhring. Minnt er á andlegan stuðning sem hægt er að leita eftir á þessum erfiðu tímum.

Í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar á Austurlandi kemur fram að tveir séu enn í einangrun af þeim átta sem alls hafa smitast á svæðinu. Sextán eru í sóttkví, tveimur færri en í gær.

Samráðshópar um áfallahjálp í umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi vilja minna á nauðsyn þess að huga að andlegri heilsu og velferð hjá bæði sjálfum sér og samferðafólkinu á þessum óvenjulegu tímum.

Eðlilegt er að margir finni fyrir öryggisleysi og kvíða þessa dagana. Einsemd og einmanaleiki geta líka komið fram eða aukist, nú þegar hefðbundin starfsemi og samgangur milli fólks hefur raskast vikum saman af völdum faraldursins.

Þurfir þú sjálf/sjálfur á stuðningi að halda eða teljir einhvern þurfa slíkan stuðning, til dæmis uppörvandi samtölum, sálgæslu eða ráðgjöf, aðstoð við matar- eða lyfjakaup, heimaþjónustu eða heimahjúkrun, þá ert þú hvött/hvattur til að hafa samband við félagsþjónusturnar, HSA, kirkjuna eða Rauða krossinn og koma á framfæri ábendingum eða óska eftir samtali eða stuðningi.

Það er engin skömm að því að þurfa stuðning og uppörvun – við erum öll að glíma við erfiðar aðstæður og komumst í gegnum þær með því að styðja hvert annað og hjálpast að.

Enska útgáfu af tilkynningu samráðshóps um áfallahjálp má nálgast á vef Fljótsdalshéraðs. English version.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.