Orkumálinn 2024

Minna á ábyrga ferðahegðun

Björgunarsveitir á 50 stöðum á landinu hafa í dag minnt ferðafólk á ábyrga ferðahegðun í tilefni af Safetravel-deginum. Austfirskar sveitir eru meðal þeirra.

„Við heilsum upp á ferðafólkið, spyrjum hvert það sé að fara og ræðum við það um almenna ferðahegðun, til dæmis öruggan akstursmáta og stoppa ekki úti á miðjum vegi.

Ef fólkið er að fara inn á hálendið þá hvetjum við það til að skoða aðstæður vel, hafa góðan búnað og skrá ferðaplanið sitt, til dæmis á safetravel.is,“ segir Hrefna Ingólfsdóttir úr björgunarsveitinni Einingu á Breiðdalsvík.

Félagar úr sveitinni komu sér fyrir við Kaupfélagið um klukkan fjögur í dag. Hrefna segir umferðina ekki hafa verið mikla en gesti verið móttækilegir fyrir boðskapnum.

Dagurinn í dag markar einnig upphaf þrettánda sumarsins sem sveitir Landsbjargar sinna vakt á hálendinu. Vakt verður á þremur stöðum á hálendinu og taka félagar úr Sveinunga á Borgarfirði, Ísólfi á Seyðisfirði og Héraði þátt í ár.

Félagar í Einingu fara ekki í vaktina í ár. Hrefna segir sveitina í dag mest sinna aðstoð við aðrar sveitir í stærri útköllum eftir að samið var um að einkaaðili tæki að sér að sækja þá sem lentu í vanda á Öxi eða Breiðdalsheiði.

„Þegar ferðamönnunum fjölgaði sáum við út fyrir að þetta yrði þungur róður. Fjöldinn í dag er orðinn slíkur að sveitin hefði ekki staðið undir sér ef áfram hefði verið haldið á sömu braut. Í dag er því ekki mikið um útköll hjá sveitinni í dag.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.