Miklar áhyggjur af slysahættu á Seyðisfjarðarvegi
Forsvarsmenn Múlaþings leita nú, í samstarfi við Vegagerðina, leiða til að fyrirbyggja mikla umferð gangandi vegfarenda til og frá bænum að Gufufossi eftir Seyðisfjarðarvegi. Slysahætta þar talin veruleg og hefur meðal annars lögregla lýst áhyggjum sínum.
Hér er um að ræða hópa fólks af skemmtiferðaskipum sem koma til hafnar í Seyðisfirði og lóna þar dagsstund eða svo. Margir þeirra kjósa að halda ekki í skipulagðar dagsferðir annað heldur una sér í bænum meðan á dvölinni stendur. Þá er aðdráttarafl Gufufoss mikið sökum þess að það er nánast eini staðurinn sem mælt er með á Google Maps að sögn Aðalheiðar Borgþórsdóttur, atvinnu- og menningarstjóra Múlaþings.
„Þetta er vandamál sem við erum að reyna að tækla. Það er ekki svo að við séum neitt að beina fólki þessa leiðina enda er göngustígur að fossinum sem liggur reyndar að Fjarðaseli og þaðan áfram að Gufufossi. En sá stígur er bæði lengri en að ganga eftir veginum og nokkuð mikið á fótinn síðasta spölinn.“
Aðalheiður segir að viðræður standi yfir við Vegagerðina varðandi lausnir til skamms tíma. Þetta hafi verið þekkt vandamál um skeið en tillögur að úrbótum hafi tafist að stórum hluta vegna skipulagsbreytinga á þessum slóðum vegna Fjarðarheiðarganga.
„Á þessu stigi er kannski helst að setja upp viðvörunarskilti og jafnvel lækka hraðann á þessum hluta vegarins því þarna er oft greitt ekið. Við þessu þarf auðvitað að bregðast sem fyrst og það ætlum við að gera. Langtímalausnin liggur fyrir en það tekur tíma að koma því til vegar.“
Vandamálið þó ekki einskorðað við gangandi vegfarendur því lögregla hefur sömuleiðis áhyggjur af því hversu margir ferðamenn sem koma akandi leggja bílum sínum í vegkantinum því bílastæðið við fossinn er fullt. Það vandamál leysist að líkindum að sjálfu sér þegar fram líða stundir því Vegagerðin mun færa þennan neðsta hluta vegarins fjær Fjarðaánni en nú er raunin þegar framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng hefjast.
Þó margt og mikið forvitnilegt sé að sjá í Seyðisfirði þykir kortafræðingum Google einungis ástæða til að gefa upp Gufufoss sem það eina sem markvert er. Mynd Austurland.is