Orkumálinn 2024

Mikilvægur áfangi: Hjúkrunarfræðingur ráðinn á Borgarfjörð

Hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðinn til starfa á Borgarfjörð eystri á ný, en enginn hjúkrunarfræðingur hefur verið þar búsettur síðustu fjögur ár. Borgfirðingar segja um öryggismál að ræða að hafa fagmanneskju í firðinum til að sinna bráðatilvikum.


Síðustu ár hefur hjúkrunarfræðingur heimsótt staðinn aðra hverja viku en staða hjúkrunarfræðings í plássinu verið laus til umsóknar. Borgarfjörður var tekinn inn í verkefni Byggðastofnunar Brothættar byggðir á síðasta ári en eitt af þeim málefnum sem íbúar hafa lagt hvað mesta áherslu á í verkefninu er bætt heilbrigðisþjónusta.


Alda Marín Kristinsdóttir verkefnisstjóri Brothættra byggða á Austurlandi segir ráðninguna mikilvægan áfanga fyrir Borgfirðinga. „Við erum búin að vera í samtali og samstarfi við HSA undanfarna mánuði. Það byrjaði með því að við buðum þeim á fund hingað á Borgarfjörð í lok apríl þar sem að skortur á heilbrigðisþjónustu á Borgarfirði var ræddur með stjórn HSA og íbúum á Borgarfirði.

Niðurstaða fundarins voru ákveðnar tillögur um hvernig væri hægt að bæta þjónustuna, eða gera hana viðunandi væri réttara að segja. Þar efst á blaði var að auglýsa stöðu hjúkrunarfræðings. Það er mikilvægt að hafa aðgengi að heilbrigðisþjónustu í heimabyggð en ekki síst er þetta öryggismál þegar kemur að bráðaþjónustu.“

Guðjón Hauksson framkvæmdastjóri HSA segir afar ánægjulegt að tekist hafi að ráða í stöðuna. „Við bindum vonir við að þetta bæti heilbrigðisþjónustuna á svæðinu og svo gerir tæknin það líka að verkum að staðsetning okkar fagfólks skiptir minna máli, þessi hjúkrunarfræðingur getur þannig sinnt ákveðnum störfum fyrir stofnunina í heild. Fram að þessu höfum við ekki gert kröfu um búsetu okkar fagfólks en í þessu tilfelli er ákveðið öryggismál að hafa heilbrigðisstarfsmann í þorpinu, þar sem langt er í næsta þéttbýli.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.