Mikilvægt að eldi taki mið af áhættumati

Skipulagsstofnun leggur áherslu á að veiting leyfa fyrir frekara eldi í Fáskrúðsfirði og Berufirði taki mið af áhættumati Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin telur nokkuð neikvæð áhrif geta skapast af eldinu, meðal annars á villta laxastofna í nágrenninu. Ekki er talið að eldið hafi áhrif á hrognavinnslu né siglingaleiðir.

Þetta kemur fram á áliti Skipulagsstofnunar á umhverfismati Fiskeldis Austfjarða á áhrifum eldis í fjörðunum tveimur.

Fyrirtækið sækir um að ala allt að 21 þúsund tonn í fjörðunum tveimur, sem er aukning um tíu þúsund tonn. Fyrirtækið hefur í dag leyfi fyrir 3000 tonna eldi í Fáskrúðsfirði og vill auka það í 11 þúsund. Í Berufirði hefur það leyfi fyrir 8000 tonnum og vill auka það í 9800.

Eldið í Fáskrúðsfirði hefur verið umdeilt, bæði íbúar og stærsti vinnuveitandi staðarins, Loðnuvinnslan, hafa varað við neikvæðum áhrifum þess. Það endurspeglast í óvenjumörgum athugasemdum einstaklinga og félagasamtaka við matið, yfir 40 slíkar bárust, flestar frá Fáskrúðsfirði.

Þegar flett er í gegnum álit Skipulagsstofnunar tekur hún hins vegar meira tillit til hefðbundinna umsagnaraðila, einkum Hafrannsóknastofnunar.

Ósammála um villta stofna

Umfangsmestu athugasemdir Skipulagsstofnunar snúa að mögulegum áhrifum þess ef eldislax sleppur og blandast villtum laxi. Bæði hún og Hafrannsóknastofnun gera alvarlegar athugasemdir við framsetningu Fiskeldis Austfjarða á þeim áhrifum. Sérfræðingar síðarnefndu stofnunarinnar ganga svo langt að skrifa að fyrirtækið hafi skrifað kaflann um slysasleppingar og erfðablöndun út frá fyrirframgefinni niðurstöðu, geri lítið úr villtum laxastofnum til að sýna á fram á sem minnst möguleg áhrif.

Fiskeldi Austfjarða heldur því meðal annars fram að stofninn í Breiðdalsá, næstu laxveiðiá við eldið í Fáskrúðsfirði, sé ósjálfbær. Honum sé haldið við með að sleppa í hann fjölda seiða árlega. Því er hafnað af Veiðimálastofnun en kannanir hennar benda til þess að 60% fiskanna klekist út í ánni.

Fiskeldið heldur því einnig fram að norskar rannsóknir sýni að áhrif eldislax á villtan lax séu takmörkuð. Þegar eldislax sleppi syndi hann út á opið haf og lifi þar vart af. Hættara sé við að ungir fiskar, rétt komnir af seiðastigi, leiti frekar upp í árósa.

Fullyrðingum Fiskeldis Austfjarða hafnað

Í umsögn Hafrannsóknastofnunar segir að fullyrðing um að lítið sé af strokulaxi hafi fundist í ám á vesturströnd Noregs sé röng. Í rannsókn sem gerð var þar í 21 á árið 2014 reyndist hlutfall eldislax í tólf þeirra yfir 10%, þarf af yfir 50% í tveimur.

Stofnunin hafnar því einnig að erfitt sé að staðfesta breytingu á erfðamengi á villtum laxi og vísar til nýlegrar yfirlitsgreinar um að innblöndun eldislax leiti til breytingar í lífsferli og fækkunar í stofni villtra laxa sem leiði til veikari stofns til lengri tíma. Kannaðar voru 175 ár og 2/3 hluti laxastofna þeirra hafði orðið fyrir erfðafræðilegum breytingum. Ennfremur er vísað til ráðgjafar Alþjóðahafrannsóknastofnunarinnar frá 2016 sem er á svipuðum nótum.

Skipulagsstofnun bendir á að slysasleppingum í Noregi hafi fækkað verulega á síðustu árum með betri búnaði og hertum reglum. Þó er talið að fleiri laxar strjúki en tilkynnt er um. Þá er vísað í rannsóknir af Vestförðum sem benda til blöndunar villtra laxa og eldislax.

Stofnunin telur áhrif eldislax á villta stofna líkleg og verulega neikvæð. Þótt óvissa sé fyrir hendi verði að gera ráð fyrir að eldislaxar sleppi og leiti upp í nálægar ár til að hrygna. Ekki er talin ástæða til að veita öll þau leyfi sem sótt hefur verið um heldur horfa til áhættumats Hafrannsóknastofnunar frá í fyrra sem gerir ráð fyrir 6000 tonna eldi í Berufirði og alls 15 þúsund tonna eldi í Fáskrúðsfirði og Reyðarfirði. Fiskeldisfyrirtæki hafa hins vegar sótt um að ala tvöfalt meira í síðarnefndu fjörðunum tveimur.

Ekki áhyggjur af lífrænni mengun í Fáskrúðsfirði

Skipulagsstofnun veitir einnig álit á ýmsum öðrum umhverfisþáttum ræktunarinnar. Almennt virðast þau staðbundin og afturkræf. Þá leggur stofnunin til nokkur skilyrði til að varna neikvæðum áhrifum.

Í álitinu er lýst áhyggjum af hægum straumum sem geti rýrt súrefnisinnihald sjávarins við Glímeyri. Lögð er áhersla á stöðuga vöktun þar.

Fáskrúðsfirðingar hafa haft áhyggjur af mengun af lífrænum efnum frá eldinu. Hættan er talin lítil, þar er sterkur og stöðugur meðalstraumur er í firðinum og talsvert lóðrétt blöndun sjávar. Sjórinn þar er talinn lítt viðkvæmur og ólíklegt að ástandi hans hnigni. Stofnunin óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um staðsetningu inntaka Loðnuvinnslunnar á sjó sem nýttur er til hrognavinnslu. Þau eru talin það fjarri eldinu að ólíklegt sé að úrgangurinn hafi þar áhrif.

Kvíarnar verða á þremur stöðum í Fáskrúðsfirði. Við Eyri í honum sunnanverðum, við Höfðahús að norðan og Æðarsker yst í firðinum. Aðeins eru nýtt tvö svæði í einu en hvert svæði er hvílt á þriggja ára fresti.

Áhrif botnsfalls undir kvíunum er talið afar staðbundið og afturkræft með hvíldinni. Það sama á við um breytingu á lífríki botndýra. Þörf er talin á vöktun við Æðarsker, botninn þar er harður þannig ekki náðist að taka sýni.

Skipulagsstofnun óskaði umsagnar Landhelgisgæslunnar á áhrifum kvíanna á siglingaleiðir í Fáskrúðsfirði. Að henni fenginni lagði Fiskeldi Austfjarða til að hvert svæði yrði minnkað. Að mati Skipulagsstofnunar hefur sú nýja tillaga lítil eða engin áhrif á siglingaleiðir sem voru nokkur í þeirri eldri.

Atvinnutækifærum fjölgar

Nokkrar áhyggjur eru af möguleika á sjúkdómum, svo sem laxalús og nýrnaveiki í eldinu og að það berist víðar. Ólíklegt er að þeir berist út fyrir firðina þar sem eldið er en þó ekki útilokað. Hægt er að beita efnum til að ráða niðurlögum sjúkdómanna en þau geta haft neikvæð áhrif á aðra stofna á svæðinu. Skipulagsstofnun vill að við veitingu rekstrarleyfis verði sett skilyrði, meðal annars um viðbragðsáætlanir og vöktun sem gerð verði opinber. Sjúkdómahættan aukist eftir því sem eldi vex og þéttist.

Umhverfisstofnun hafnar fullyrðingum Fiskeldis Austfjarða um að eldið hafi ekki áhrif á æðarfugl. Skipulagsstofnun brýnir að vanda þurfi til við frágang lífræns úrgang. Nokkur óvissa sé um áhrif á fuglalíf, einkum mögulega fjölgun máva og áhrif ágangs þeirra á aðrar tegundir.

Áhrif á samfélag eru metin þau að atvinnutækifærum fjölgi og líklega þurfi fólk að flytjast að til að manna ný störf. Mögulega geti þrengt að veiðum minni báta á firðinum en óvissa ríki þar, þótt ákveðin svæði lokist þýði það ekki minni heildarafla. Þá sýni reynsla frá Vestfjörðum að eldi geti stutt við fiskveiðar. Þá eru áhrif á ferðamennsku metin neikvæð þar sem kvíarnar hafa neikvæð áhrif á ásýnd fjarðanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.