Mikill flúor í dýrum í Reyðarfirði en ekki merki um eitrun

lomb.jpg
Óvenjuhátt flúorgildi mælist í sláturfé og grasbítum í Reyðarfirði. Ekki hafa fundist merki um eitrun en sérfræðingar telja ástæðu til að fylgjast áfram með dýrunum. Of mikill flúor fór út frá álveri Alcoa Fjarðaáls síðasta sumar þar sem mengunarbúnaður bilaði.

Tekin voru sýni úr ellefu kindum frá bænum Sléttu í Reyðarfirði, fimm lömbum, þremur veturgömlum kindum og þremur eldri og greind á rannsóknastöðinni á Keldum. Í niðurstöðum segir að flúorinnihald í kjálkabeinum hafi verið hátt og gildi í öllum sýnunum hærri en niðurstöður í flúormælinum úr fullorðnu fé frá bænum árið 2006. Engin merki fundust þó um eitrun. Hæst voru gildin í elstu rollunum.

Dýralæknir skoðaði þrjátíu gripi, 24 kindur, fimm hestar og einn kálfur á Sléttu, Áreyjum og á hesthúsasvæðinu. Ekki sáust breytingar á beinum eða dýrunum sem dýralæknirinn taldi að hægt væri að rekja það beint til flúormengunarinnar. Í skýrslu dýralæknisins segir að áhrifin geti komið fram á löngum tíma og því sé ástæða til að fylgjast með. Fleiri gripir séu í áhættuhópi sem ekki hafi náðst til í þessari skoðun.

Umhverfisstofnun hefur óskað eftir áliti Matvælastofnunar á þessum niðurstöðum, ásamt og greiningum á styrk flúors í grasi, heyi, korni og grænmeti. Þá hefur stofnunin óskað eftir viðbótargögnum við greinargerð Fjarðaáls um málið. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.