Mikill fjöldi á stofnfundi Austurlandsdeildar Norræna félagsins

„Það kom mér mjög á óvart hversu margir komu á fundinn og sýndu þessu áhuga en það var ekki eitt laust sæti í salnum,“ segir Signý Ormarsdóttir, sem haft hefur veg og vanda af því að endurvekja deild innan Norræna félagsins hér á Austurlandi.

Stofnfundur deildarinnar var í gær á Egilsstöðum en þetta er eina slíka deildin á Austurlandi öllu. Slík deild var til staðar fyrir mörgum árum síðan en sú deild lognaðist út af. Gestir komu alls staðar af úr fjórðungnum á stofnfundinn svo óhætt er að tala um Austurlandsdeild að mati Signýjar.

Signý segir að hún sjálf hafi lengi brunnið fyrir sterkara norrænu samstarfi á hinum ýmsu sviðum samfélagsin enda sé leitun að jafn merkilegu fyrirbæri annars staðar í heiminum og mikilli samvinnu og samstarfi norrænu þjóðanna um langa hríð.

„Framundan er að koma deildinni formlega á laggirnar, skipa í nefndir og þetta hefðbunda og við gælum við að halda svo annan góðan fund með áhugasömum þegar líður á árið. Það er nefninlega mikilvægt að fleiri komi að áætlunum og framtíðarsýn en bara stjórnarmenn. Við viljum endilega fá sjónarmið allra og miðað við mætinguna á fundinn er sannarlega áhugi til staðar hér fyrir austan.“

Sjálf segir Signý hugsanleg verkefni geti verið af ýmsum toga en Norræna félagið sjálft hefur margvísleg mismunandi verkefni á sinni könnu sem deildin hér fyrir austan gæti tekið þátt í og notið góðs af. Hver þau verða kemur í ljós þegar fram líða stundir.

Norrænt samstarf og samvinna hefur ekki farið jafn hátt undanfarin ár og áður fyrr en ekki vantaði áhugasama á stofnfund nýrrar deildar hér austanlands. Mynd Norden.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.