Mikill áhugi á Hellisfirði

Fasteignasali segir mikinn áhuga á jörðinni Hellisfirði í samnefndum firði sem auglýst var til sölu í byrjun vikunnar. Hinir áhugasömu telja það jafnvel kost að ekki sé akvegur í fjörðinn.

„Ég finn mjög mikinn áhuga, bæði innlendra sem erlendra aðila,“ segir Ævar Dungal, fasteignasali hjá Domus sem er með jörðina í sölu en Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi, keypti hana árið 2000.

Bærinn Hellisfjörður stóð í botni samnefnds fjarðar sem er sá næsti sunnan við Norðfjörð. Samkvæmt landamerkjum á kortavef Loftmynda ehf., map.is, nær jörðin frá ósi Hellisfjarðarár upp á Hellisfjarðarmúla, inn og upp að Vindhálsi og svo út fjörðinn sunnanverðan eftir Hellisfjarðarströnd að Viðfjarðarnesi. Í auglýsingu kemur fram að jörðin sé skráð 1900 hektarar.

Í og við ósinn hefur gengið ágætlega að veiða silung og fugla. „Það er einna mestur áhugi á ánni,“ segir Ævar. Á jörðinni er sumarhús, byggt árið 1970.

Fjörðurinn sjálfur hefur hins vegar verið í eyði frá árinu 1952. Frá 1901-1913 var rekin norsk hvalveiðistöð í landi Sveinsstaða, sem eru utar í firðinum norðanverðu og má þar enn sjá minjar um hana.

Ekki er akvegur til Hellisfjarðar og þurfa áhugasamir því annað hvort að finna bát til að sigla þangað vilji þeir skoða eignina eða fara fótgangandi frá Norðfirði. „Margir af þeim sem sýnt hafa áhuga telja hins vegar kost að það sé ekki vegur,“ segir Ævar.

Hann segir fátítt að nánast heill fjörður sé settur til sölu á fasteignasölum. „Það er einstakt. Fjörðurinn er sérstök náttúruperla með mikla sögu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.