Mikil viðskipti með miða á Bræðsluna

Mikil viðskipti hafa verið með miða á Bræðsluna á Borgarfirði eystri á Facebook síðu hátíðarinnar undanfarna daga. Um er að ræða um 220 færslur þar sem miðar eru ýmist til sölu eða óskast til kaups.

Fljótt á litið virðist vera jafnvægi milli þeirra sem vilja selja miða og þeirra sem vilja kaupa. Á síðunni segir að það hefur aðeins borið á því að fólk sé ýmist að leitast við að losa sig við miða eða kaupa...“eigum við ekki bara að nota þennan þráð í það.“

Eins og fram hefur komið í fréttum stefnir COVID í veldisvöxt að nýju hérlendis. Af þeim sökum eru líkur á að sóttvarnaaðgerðir verði hertar innanlands. Þegar er búið að herða reglur á landamærunum.

Hætta er á að hátíðir á borð við Bræðsluna og Franska daga á Austurlandi verði blásnar af ef ákveðið verður að beita fjöldatakmörkunum að nýju.

Aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi sendi frá sér tilkynningu í vikunni þar sem segir að mikill fjöldi fólks er á Austurlandi, tjaldstæði þétt setin og stórar bæjarhátíðir á dagskrá næstu helgi og þetta kallar á aðgát allra sem að þeim koma og þar verða.

„Aðgerðastjórn vill árétta að nú skiptir gífurlega miklu máli að við stöndum saman og hjálpumst að við að halda persónubundnar sóttvarnir. Þar ber helst að nefna handþvott og spritt eins og við þekkjum öll en einnig skiptir máli að vera vel vakandi fyrir einkennum sem geta bent til kórónuveirusmits. Þau einkenni geta verið hálssærindi, kvef, hiti, beinverkir, skert bragð-/lyktarskyn eða niðurgangur en einnig getur fólk verið einkennalítið. Aðgerðastjórn vill því hvetja alla til að fara í sýnatöku ef minnsti grunur leikur á smiti,“ segir í tilkynningunni.

Mynd: Facebook.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.