
Mikil þörf á endurnýjun flugvalla
Mikil uppsöfnuð þörf er orðin á viðhaldi flugvalla hérlendis. Þörf er á talsverðum framkvæmdum við völlinn á Egilsstöðum til að hann uppfylli Evrópureglur og geti sinnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavík.Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu Samtaka iðnaðarins um ástand innviða á Íslandi sem kom út í gær. Þar kemur fram að uppsöfnuð viðhaldsþörf innviða sé áætluð 420 milljarðar.
Þar eru innviðir greindir og þeim gefin einkunn á bili 1-5, þar sem 1 er lægsta einkunn og 5 sú hæsta. Há einkunn þýðir að innviðirnir eru nýir, uppfylla allar kröfur nútímans og mörg ár í verulegt viðhald en lág einkunn að þeir uppfylli ekki kröfur og þörf sé á verulegum úrbótum, eða algjörri endurnýjun.
Flugvellir innanlands fá að meðaltali einkunnina 2,5. Þar fá alþjóðaflugvellir utan Keflavíkur einkunnina 3. Nokkrum orðum er vikið að Egilsstaðaflugvelli í skýrslunni og bent á að þar sé komið að endurnýjun malbiks á flugbrautinni, að stækka þurfi flughlaðið þar til að völlurinn geti gegnt hlutverki varaflugvallar auk þess sem setja þurfi upp aðflugsljós til að uppfylla Evrópureglugerðir. Einhverjar af þessum framkvæmdum eru þegar komnar á dagskrá.
Aðrir flugvellir og lendingastaðir fá einkunnina 2. Þar hafa endurbætur og viðhald verið í lágmarki síðustu ár og takmarkast við brýnustu verkefnin sem lúta að flugöryggi. Víða er þörf á endurnýjun tækja. Þá er komið inn á að þörf sé á nýrri flugstöð í Reykjavík.
Þjóðvegirnir í landinu fá einkunnina 2 sem þýðir að stór hluti vegakerfisins uppfyllir ekki lágmarksviðmið. Þar er uppsöfnuð viðhaldsþörf talin 160-180 milljarðar króna.
Fráveitur fá einnig einkunnina 2. Fráveituvirki eru sögð heilt yfir í slæmu ásigkomulagi vegna aldurs og starfsemi umtalsverðs hluta þess geti talist í hættu. Bent er á að vegna hlýnunar loftslags þurfi þau að geta tekið við aukinni úrkomu og ofanvatni.
„Búast má við meiri úrkomustyrk í stuttum atburðum en ástand margra veitna á landinu, sér í lagi í byggðum við fjallsrætur eða í dölum, hafa margar ekki afkastagetu fyrir mikla aukningu ofanvatns,“ segir í skýrslunni. Hvatt er til þess að Alþingi setji reglur um ofanvatn í fráveitum.
Hitaveitur eru taldar almennt í góðu ástandi og fá einkunnina 4, vatnsveitur 3,5, úrgangsmál 3, fasteignir ríkis 3 en sveitarfélaga 3,5 og raforkuvinnsla 4.
Dreifikerfi raforku fær einkunnina 3,5. Útlitið er þó ágætt þar, meðal annars vegna framkvæmda á Austurlandi. Landsnet áætlar að koma Kröflulínu 3, 220 kV línu milli Fljótsdalsstöðvar og Kröflu í rekstur fyrri hluta þessa árs
Þá er styrking byggðalínuhringins á áætlun. Til stendur að reisa nýjar 220 kV línur þannig að samfelld slík tenging verði frá Brennimel á Hvalfjarðarströnd austur í Fljótsdal. Auk þess stendur til að tengja Austurlandskerfið við 220 kV kerfið með byggingu tengivirkis í Skriðdal.