Orkumálinn 2024

Mikil forföll í Djúpavogsskóla gætu tengst Covid

Um helmingur nemenda og þriðjungur kennara við Djúpavogsskóla eru fjarri góðu gamni vegna ýmis konar veikinda. Hugsanlega er í tilfellum um Covid-smit þar að ræða.

Skólastjóri Djúpavogsskóla, Þorbjörg Sandholt, segir forföll óvenjulega mikil í gær og í dag en með samstilltu átaki þeirra sem eftir eru hefur tekist að halda uppi skólastarfinu með sæmilega eðlilegum hætti.

Hún vill ekki fastsetja að hér geti verið um nýjan Covid-faraldur að ræða enda liggi ekkert fyrir um það. Veikindi almennt séu töluverð á þessum tíma en hún hefur haft fregnir af staðfestum tilvikum Covid meðal bæjarbúa.

„Ég hef fregnað það að það hafa tilvik Covid komið upp hér upp á síðkastið en hvort það er bein tenging við forföllin í skólanum get ég ekki sagt til um. Ég hins vegar sjálf vill hafa vaðið fyrir neðan mig og því mætti ég til vinnu í gær með grímu og það vakti svo mikla athygli að í dag mættu allnokkrir aðrir með grímur líka. Það er ekki mikið meira sem við getum gert en notað grímu og þvegið okkur vel og vandlega um hendur á þessu stigi.“

Vegna veikindahrinunnar í bænum hefur einnig verið ákveðið að fresta tímabundið þorrablóti Djúpavogsbúa.

Ekki náðist í sóttvarnarlækni eða framkvæmdastjóra lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.