Mikil fjölgun tilkynninga til barnaverndaryfirvalda í Fjarðabyggð

„Okkur grunar að aukningin að stórum hluta skýrist af því að yfir þetta tímabil var gert mikið átak í bæði skólum og annars staðar í þjóðfélaginu að kynna bæði þjónustu og úrræði Barnaverndaryfirvalda og kannski ekki síður meiri umfjöllun um barnaverndarmálefni í fjölmiðlum ,“ segir Óskar Sturluson, stjórnandi barnaverndar og félagsþjónustu hjá Fjarðabyggð.

Sprenging hefur orðið í fjölda tilkynninga til barnaverndar sveitarfélagsins síðustu árin eins og sjá má á meðfylgjandi töflu. Tilkynningum fjölgaði um 260% frá 2015 til 2020 eða frá 68 tilkynningum upp í 242. Fyrra árið vörðuðu ábendingar alls 51 barn en fjöldinn kominn í 163 börn 2020.

Ábendingum hefur fækkað nokkuð á yfirstandandi ári en samkvæmt framreiknuðum tölum út árið verða þær innan við 200. Óskar, sem sjálfur hóf störf hjá Fjarðabyggð 2020, fagnar því að tilfellum fækki töluvert og telur meginástæðu þess vera tilkoma Spretts sem er þverfaglegt teymi sérfræðinga sem starfar í nánu samstarfi við aðra fagaðila í málefnum barna.

„Það er langlíklegasta skýringin á fækkuninni því samanborið við landið í heild er aukning á tilkynningum til barnaverndaryfirvalda. Að því leyti skerum við okkur aðeins úr og vonandi verður svo áfram.

Óskar ítrekar ennfremur að góðu heilli sé meirihluti ábendinga ekki vegna alvarlegra atvika.

„Við skoðum auðvitað öll mál er koma inn til okkar en oft eru mál þess eðlis og væg að ekki kemur til okkar kasta í framhaldinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.