VG - kosningar - sept 2021

„Mikið var af klósettpappír og ógeði þar“

Náttúrustofa Austurlands hóf í fyrra verkefnið sem felur í sér vöktun á verndarsvæðum og öðrum svæðum sem eru undir álagi ferðamanna innan Múlaþings. Náttúrustofa skilaði nýverið inn minnisblaði vegna vöktunarinnar árið 2020 til sveitarfélagsins. Eftirfarandi svæði voru könnuð: Laugavalladalur, Stórurð, Hvannalindir og Stuðlagil.


Náttúrustofa Austurlands telur að Laugavalladalur þoli ekki þann fjölda sem sækir laugarnar en um hundrað manns voru á ferðinni um svæðið á þeim fimm klukkustundum sem vöktunin stóð yfir. „Svæðið þolir ekki þann fjölda sem sækir laugarnar. Boðið er upp á frumstæða aðstöðu til að skipta um föt með skjólveggjum uppi á gamla túninu ofan við laugarnar. Fæstir nýta sér þó þá aðstöðu, enda ekki spennandi fyrir spéhrædda að þurfa að tipla fáklæddir niður að laugunum. Stígurinn frá búningssvæði uppi á túni og niður að laugum er hreint út sagt afleitur og eiginlega varla fær [...] Þá er of langt í klósettaðstöðuna frá laugunum og greinilegt að margir fara aðeins í suður í hvarf meðfram klettum og ánni og gera þarfir sínar þar. Mikið var af klósettpappír og ógeði þar,“ segir í minnisblaðinu.

„Skemmdir áberandi alls staðar meðfram bökkum gilsins“
Stuðlagil varð geysivinsæll viðkomustaður ferðamanna á síðasta ári og segir Náttúrustofa Austurlands að það sé farið að sjá á svæðinu vegna þess ágangs sem þar hefur verið. „Skemmst er frá því að segja að stígarnir beggja vegna Stuðlagils voru verulega illa farnir víða og margir hentistígar höfðu myndast. Sums staðar voru stígar og þeir útsýnisstaðir sem ferðamenn fara á jafnvel hættulegir, ýmist af því að þeir eru hálir og brattir og liggja nálægt gljúfrinu, eða berg er augljóslega sprungið frá bökkum. Það virðist ekki aftra gestum. Ljóst er að svæðin beggja vegna árinnar hafa mikið látið á sjá á stuttum tíma. Klausturselsmegin voru skemmdir áberandi alls staðar meðfram bökkum gilsins þar sem gróðurhula var algerlega farin. Einnig voru svæði þar sem stígar liggja um votlendi orðin útjöskuð á allt að 12 m breiðum svæðum [...] Einnig má geta þess að staðir þaðan sem hægt var að sjá ofan í gilið voru allir úttraðkaðir, alveg út á ystu brún, jafnvel þó vel væri hægt að sjá ofan í gilið frá útsýnispallinum,“ segir um Stuðlagil í minnisblaðinu.

Ástandið í Stórurð og í Hvannalindum var öllu betra. „Talsvert traðk var í kringum Stórurðina sjálfa og hentistígar víða. Stígurinn Héraðsmegin var meira og minna í slæmu ástandi, en skemmdirnar voru mest áberandi í blautu landi,“ segir um Stórurð í minnisblaðinu og um Hvannalindir segir: „Ástand við rústir var sæmilegt, en mikið var þó um hentistíga því fólk reynir að komast nær rústunum og sjá meira.“

Náttúrustofa Austurlands mun halda áfram með þetta verkefni og niðurstöður fyrir árið í ár munu liggja fyrir í nóvember næstkomandi. Fardagafoss, Ystri-Rjúkandi og Teigarhorn munu bætast við þá staði sem kannaðir voru í fyrra.

 

Mynd: Gönguleiðin að Laugavallalaug þar sem nokkuð há rofabörð eru víða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.