Mikið um hraðakstur í mars á Austurlandi

Í marsmánuði voru hundrað og fimmtíu ökumenn stöðvaðir á Austurlandi vegna of hraðs aksturs, margir þeirra innanbæjar. Tvö hundruð umferðarlagabrot voru skráð í mánuðinum.

Þetta kemur fram á vefsíðu lögreglunnar. Þar segir að lögreglan mun áfram fylgjast með hraða ökutækja bæði innanbæjar og utan með hækkandi sól. Sérstakt eftirlit verður á Háreksstaðaleið ofan Vopnafjarðar og á suðurfjörðum við Djúpavog þar sem mælingar á mælistöðvum Vegagerðar frá síðasta sumri sýndu að hraðakstur var nokkur.

Lögregla hvetur ökumenn til að gæta vel að hraða ökutækja sinna og öryggisbúnaði. Skráð umferðarslys eru fimm frá áramótum sem er svipaður fjöldi og árin 2019 og 2020. „Vinnum þetta saman, förum varlega, gætum að hraðanum og gerum þannig okkar til að koma í veg fyrir umferðarslys og -óhöpp,“ segir í tilkynningunni.

Páskahelgin var að mestu tíðindalaus hjá lögreglunni á Austurlandi. Að morgni skírdags fundust þó mannabein í fjöru við Vopnafjörð. Beinin eru komin í hendur kennslanefndar ríkislögreglustjóra sem reynir að finna uppruna þeirra. Ekki er von á tíðindum af því fyrr en um næstu mánaðarmót, þá meðal annars að lokinni DNA greiningu.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.