Mikið tekjutap fyrir Austfirði ef engin loðna finnst

Fyrirtæki í Fjarðabyggð verða af útflutningstekjum upp á tæpa fimm milljarða króna ef ekki veiðist loðna, annað árið í röð. Tekjutap er fyrirsjáanlegt víðar á svæðinu.

Þetta kemur fram í hagsjá Landsbanka Íslands. Heildarútflutningsverðmæti loðnu árin 2016-18 nam 18,1 milljarði króna.

Samkvæmt samantektinni fara Vestmannaeyjar verst allra byggðarlaga út úr loðnubresti, fyrirtæki þar verða af 5,8 milljörðum. Fyrirtæki í Fjarðabyggð verða samanlagt af 4,8 milljörðum sem skiptist þannig að í Neskaupstað verða þau af tekjum upp á 2,9 milljarða, 1,6 á Eskifirði og 0,3 á Fáskrúðsfirði.

Reykjavík verður fyrir næst mesta tapinu samkvæmt samantektinni, 3,3 milljörðum. Sú mynd kann að vera nokkuð skökk þar sem tekjur Brims eru skráðar í Reykjavík þótt mestri loðnu fyrirtækisins sé landað á Vopnafirði.

Aflahlutdeild og landanir

Þetta sést þegar skoðaðar eru tölur um afahlutdeild einstakra fyrirtækja og landanir eftir höfnum, sem einnig má finna í samantektinni.

Aflaheimildir í loðnu hafa safnast saman á færri fyrirtæki undanfarin ár með vaxandi sérhæfingu. Þannig hafa fyrirtæki með starfsstöðvar á Austurlandi lagt sig fram um að byggja upp aflaheimildir í loðnu.

Ekkert fyrirtæki má hafa hærra hlutfall en 20%. Ísfélagið í Vestmannaeyjum heggur þó nærri því með 19,99% hlutdeild. Næst stærst er Brim með 18,8% og Síldarvinnslan með 18,8%. Eskja er í fimmta sæti með 8,8% og Loðnuvinnslan Fáskrúðsfirði með 0,3%.

Vestmannaeyjar eru stærsta löndunarhöfnin með 29% aflans en Norðfjörður sú næst stærsta með 22%. Í þriðja sæti birtist síðan Vopnafjörður með 11,5%, Eskifjörður í fjórða með 8,7% og Fáskrúðsfjörður í sjötta með 4,9%.

Reykjavík hverfur hins vegar út úr myndinni, 0,9% aflans er landað þar. Sömu sögu er að segja um Akureyri sem í gegnum Samherja hefur um 9% kvótans en landar engu. Til samanburðar má nefna að 2% aflans er landað á Seyðisfirði, 3,5% á Þórshöfn og 4% í Keflavík. Ekkert þessara byggðarlaga hefur loðnukvóta. Alls hafa 12 fyrirtæki aflahlutdeildir en landað er í 11 höfnum.

Ekki nóg fundist enn

Þar til í fyrra hafði loðna verið veidd á Íslandsmiðum samfellt frá árinu 1963. Loðnuleitin hófst fyrir sléttri viku en seinni partinn í gær komu leitarskipin þrjú, Hákon EA, Polar Amaroq GR og Árni Friðriksson, inn til Ísafjarðar.

Á vef Fiskifrétta er haft eftir Birki Bárðarsyni, leiðangursstjóra, að loðnutorfur hafi fundist á landgrunninu vestur af Kolbeinseyjahrygg, en ekki í það miklu magni að líkur séu á að að kvóti verði gefinn út. Stefnt er að því að skipin fari út aftur á morgun og ljúki við leit út af Vestfjörðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.