Mikið óöryggi með flugið

Mikil óánægja er meðal farþega innanlandsflug með þjónustu Icelandair á flugleiðinni milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Þrjár af síðustu fjórum vélum félagsins á leiðinni hafa verið klukkustund eða meira á eftir áætlun.

„Mín upplifun af því að nota innanlandsflugið mikið er að oftar en ekki er eitthvað sem ekki stenst eða er ekki á pari við það sem ég bókaði og greiddi fyrir,“ segir Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs af Fljótsdalshéraði.

Jódís tilheyrir þeim hópi fólks sem vinnu sinnar vegna flýgur títt milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Starfið þýðir hins vegar líka að oft er ekki ljóst nema með skömmum fyrirvara hvenær fundir eru eða hvenær þeim lýkur. „Þjónustan verður líka að snúast um framboð, að neytandinn hafi eitthvert val um hvenær hann fer, eða eins í mínu tilfelli að ég geti farið heim yfir helgi og komist aftur áður en þingið hefst á á mánudegi.

Ég veit hins vegar oft ekki fyrr en á miðvikudegi fimmtudegi hvenær nefndarstörfum lýkur og undanfarið hefur þá ekkert verið laust í vélarnar. Ég hef farið sjaldnar austur en ég hefði viljað þegar ég hef átt helgarfrí.“

Stóru vélarnar í viðhaldi

Heimastjórn Fljótsdalshérað óskaði í apríl eftir upplýsingum frá Icelandair vegna takmakaðs sætaframboðs á flugleiðinni. Í svari Boga Nils Bogasonar, forstjóra Icelandair, segir að mikil aukning hafi orðið á eftirspurn eftir flugi við afléttingu samkomutakmarkanna í lok febrúar sem ekki hafi náðst að bregðast við. Áður hafi verið erfitt að áætla flugframboð þegar takmarkanir voru hertar og rýmkaðar á víxl.

Eins sé töluvert mikið bókað skömmu fyrir flugtak þannig fyrirvarinn til að bregðast við, til dæmis með að bæta við vélum, hafi verið of knappur. Í einhverjum tilfellum hafi verið bætt við vélum, í stað 2-3 véla á dag fimmtudaga, föstudaga og sunnudaga hafi verið farið upp í fjórar vélar en það ekki dugað til.

Icelandair notast við fimm Bombardier-vélar í innanlandsfluginu. Hinar þrjár minni taka 37 farþega hver meðan stærri vélarnar taka helmingi fleiri, eða 75. Því bætti það gráu ofan á svart að á sama tíma og eftirspurnin jókst var kominn tími á viðhald þeirra. Önnur þeirra var erlendis í mars og þegar hún kom heim fór seinni vélin út. Samkvæmt vefnum Flightradar24 kom hún til landsins í morgun og á að fara inn í áætlun á föstudag.

En það er ekki bara framboðið sem ergt hefur austfirska flugfarþega að undanförnu heldur mikið af seinkunum eða öðrum breytingum. Nefna má sem dæmi að morgunvélin í Egilsstaði í gær var sein um 1,5 tíma og kvöldvélum um tæpa þrjá tíma. Þá var vélin í morgun hátt í 1,5 tíma á eftir áætlun. Þetta þýðir að þrjú af síðustu fjórum flugum austur hafa verið meira en klukkustund á eftir áætlun.

Dýrkeypt fyrir notendur

Slíkar breytingar geta haft veruleg óþægindi í för með sér fyrir fólk sem treystir á flugið. Við bætist að Icelandair virðist sýna takmarkaðan sveigjanleika við slíkar kringumstæður, miðað við skrif Austfirðinga á samfélagsmiðla sem og samtöl sem bæði Austurfrétt og Jódís hafa átt við farþega síðustu vikur.

„Endalausar breytingar eru erfiðar fyrir fólk sem sækir þjónustu svo sem vegna lækna eða náms. Það munar miklu að fara að morgni og geta komist heim að kvöldi til að þurfa ekki að taka tveggja daga frí úr vinnu. Þess vegna treystir fólk á áætlanirnar en þetta þýðir líka að klukkustundar breyting á flugi getur eyðilagt daginn ef fólk missir af tímanum sínum.

Síðan hef ég bæði heyrt í fólki og lent í því sjálf að fluginu hafi verið flýtt þannig fólk hafi annað hvort rétt náð eða jafnvel misst af flugi. Fólk sem búið er að kaupa dýran flugmiða á erfitt með að skilja svona breytingar,“ útskýrir hún.

„Annað sem gerist við breytingu á flugi er að þjónusta sem bókað er og greitt er fyrir dettur út, svo sem ákveðið sæti eða auka taska. Það hefur yfirleitt verið leyst að lokun en kostað tíma og jafnvel peninga,“ bætir hún við.

Þjónustan virðist versna við hverja nafnabreytingu

Innanlandsflugið var lengi rekið sem dótturfélag Icelandair, síðast undir merkjum Air Iceland Connect, en rann saman við móðurfélagið snemma í Covid-faraldrinum vorið 2020. Skömmu síðar var ýmis þjónusta sameinuð, meðal annars bókunarkerfið.

„Innanlandsflugið hefur skipt ansi ört um nafn síðustu ár og hverri nafnabreytingu virðist fylgja nýtt vandamál fyrir notendur. Við erum ekki ferðafólk heldur einstaklingar að sækja lífsnauðsynlega þjónustu. Þess vegna virkar það galið að við séum í sama kerfi þar sem ekki er svigrúm fyrir eitt né neitt.

Síðan þegar eitthvað gerist tekur langar tíma að komast í samband við starfsmann þjónustuvers sem jafnvel getur ekki leyst vandamálið og þarf að vísa viðkomandi annað. Það virðist hafa orðið einhver viðhorfsbreyting gagnvart okkur notendum sem mér finnst óboðlegt,“ segir Jódís.

Loftbrúarleggir falla niður dauðir

Haustið 2020 var tekin í gagnið Loftbrú, þar sem ríkið niðurgreiðir allt að sex flugleggi á ári fyrir íbúa úr hinum dreifðu byggðum. Breytingar á flugi eða annars staðar geta haft áhrif á nýtingu Loftbrúarinnar. „Ég hef heyrt í fólki sem hefur notað Loftbrúna til að bóka flug til að mæta hjá lækni, en síðan breytist læknistíminn og þá er flugleggurinn ónýtur. Sumt fólk hefur fengið þessu reddað með ýtni en það skapar mismunun því ekki allt fólk treystir sér í löng símtöl eða bréfaskriftir,“ segir Jódís.

Í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, innanríkisráðherra við fyrirspurn Jódísar á Alþingi segir að notendur eigi að fá miða sína endurgreidda sé ferð afbókuð eða felld niður af flugfélagi, háð því að keyptur sé flugmiði með þeim skilyrðum að hann sé endurgreiðanlegur. Til þessa hafi réttindi Loftbrúar í langflestum tilfellum verið endurútgefin og því ekki talin þörf á sérstökum úrræðum. Ekki liggur fyrir tölfræði hjá Vegagerðinni, sem heldur utan um Loftbrúna, á hve margar flugferðir hafi fallið niður á kostnað flugfarenda, þar sem þær séu aðeins lítið brot af heildinni.

Þá kemur fram í svarinu að flugfargjöld hafi hækkað um 10% milli febrúar 2021 og 2022, miðað við greiðslur úr Loftbrúnni. Mikil hækkun eldsneytis kann að spila þar inni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.