Miðflokkurinn skoðar framboðsmál: Það er maður að tala við mann

Félagar í Miðflokknum skoða þessa dagana möguleika á framboðum til sveitastjórna á Austurlandi. Lengst eru málin komin í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði en áhugi er á framboðum víðar um kjördæmið.

„Það eru pælingar í gangi, mikill áhugi en ekkert í hendi enn,“ segir Hannes Karl Hilmarsson, formaður nýstofnaðs kjördæmisfélags flokksins í Norðausturkjördæmi.

„Það eru þreifingar í nokkrum kaupstöðum í kjördæminu. Þær eru hvergi komnar á það stig að hægt sé að gefa út 100% að það verði boðið fram en það er ansi líklegt víða. Það er maður að tala við mann og áhugi víða sem er jákvætt.“

Miðflokkurinn auglýsti í byrjun árs eftir áhugasömu fólki á Fljótsdalshéraði og samkvæmt heimildum Austurfréttar er góður gangur í undirbúningi framboðs í Fjarðabyggð. Hannes kvaðst geta staðfest að þreifingar væru í báðum sveitarfélögunum.

Aðspurður sagði hann ennfremur að oddvitaefni væru í handraðanum en of snemmt væri að opinbera nöfn þeirra.

Eins hefur spurst til þreifinga um framboð Miðflokksins á Seyðisfirði. Hannes segir þær skemur á veg komnar heldur en í stóru sveitarfélögunum tveimur.

Hannes var kjörinn formaður kjördæmisfélagsins á stofnfundi sem haldinn var í Valaskjálf sunnudaginn 28. janúar. Húsfyllir var á fundinum. „Það kom skemmtilega á óvart. Það er ekki alltaf auðvelt að fá fólk á stjórnmálafundi. Við finnum fyrir miklum áhuga, flokkurinn fékk góða kosningu í kjördæminu og var ekki fjarri því að vinna það.“

Auk Hannesar, sem býr á Egilsstöðum, voru kosin í stjórn Sigríður Bergvinsdóttir og Bjarney Guðbjörnsdóttir á Akureyri, Guðný Heiða Gestsdóttir Húsavík og Magnea María Jónudóttir frá Fáskrúðsfirði.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður ávarpaði fundinn sem og Anna Kolbrún Árnadóttir, hinn þingmaður flokksins í kjördæminu. Að undanförnu hafa verið stofnuð kjördæmafélög um allt land en næsta skref í undirbúningi sveitarstjórnarkosninganna verður flokksráðsfundur í Reykjavík um helgina þar sem línur verða lagðar og stofnum deilda í þeim sveitarfélögum þar sem stendur til að bjóða fram.

Stjórn kjördæmisfélagsins. Frá vinstri: Bjarney, Guðný, Hannes, Magnea og Sigríður. Mynd: Miðflokkurinn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.