Miðflokkurinn með bæjarstjóraefni

Miðflokkurinn er eina framboðið í Múlaþingi sem kveðst vera með bæjarstjóraefni í huga, komist framboðið í meirihlutaaðstöðu. Önnur framboð eru ekki með fastmótaða afstöðu eða lýsa yfir stuðningi við núverandi bæjarstjóra, vilji hann sitja áfram. Öll framboðin ganga óbundin til kosninga.

Þetta var meðal þess sem fram kom á framboðsfundi sem Austurfrétt og Múlaþing stóðu fyrir á laugardagskvöld þar sem fulltrúar allra framboða sátu fyrir svörum. Meðal annars var spurt hvaða leið framboðin vildu fara við ráðningu bæjarstjóra, einkum hvort þau hefðu ákveðið bæjarstjóraefni í huga.

Eitt framboð, Miðflokkurinn, reyndist hafa það. „Við erum með bæjarstjóraefni sem hefur reynslu af þessu sviði. Ef við komumst í aðstöðu til þess þá munum við ráða okkar bæjarstjóraefni,“ sagði Örn Bergmann Jónsson, sem skipar þriðja sæti listans. Hann var ekki tilbúinn að gefa upp nafn viðkomandi þegar hann var inntur eftir því.

Önnur framboð sögðust ekki vera með tiltekinn bæjarstjóra uppi í erminni. „Það er enginn af okkar lista. Þetta samtal verður tekið ef við komumst í meirihlutaviðræður. Þar er þetta ákveðið,“ sagði Ívar Karl Hafliðason, annar maður á lista Sjálfstæðisflokks.

„Við erum ekki með tiltekið bæjarstjóraefni á okkar lista. Við erum í stjórnmálum því við viljum komast í aðstöðu til að koma okkar málum áleiðis. Við sjáum þeim betur borgið í meirihluta og fyrst er að komast í þá aðstöðu. Það er ekkert skilyrði af okkar hálfu að skipta um bæjarstjóra,“ sagði Pétur Heimsson, sem skipar þriðja sætið hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði.

„Það er enginn af okkar lista sem við ætlum að tefla fram. Við höfum horft til þess að sameiningunni sé ekki lokið og ekki sé endilega skynsamlegt að skipta um skipstjóra á þessum tímapunkti,“ sagði Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks.

„Okkur hugast ágætlega að Björn (Ingimarsson) verði áfram til að klára verkefni sameiningar. Hann verður hins vegar sjötugur á miðju næsta kjörtímabili og spurningin er hve lengi hann vill vera. Því gæti þurft að auglýsa þá og það er spurning hvort Björn geti leiðbeint næsta til að ná samlegt. En ekkert okkar gengur með bæjarstjóra í magnaum,“ sagði Eyþór Stefánsson, sem skipar annað sætið hjá Austurlistanum.

Ánægja með samstarfið í sveitarstjórninni

Ekkert framboðanna hefur ákveðnar óskir um meirihlutasamstarf eða útilokaði nokkurt. Fulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sögðu samstarfið hafa gengið vel en á öllum mátti heyra að það gliti um sveitarstjórnina alla.

„Samstarfið milli allra flokka hefur gengið einstaklega vel. Okkur greinir sjaldan á, það er gott samstarf um öll málefni því við viljum skila góðu starfi. Nú ætlum við að safna atkvæðum til að komast í meirihluta en það eru engin framar öðrum í mögulegu samstarfi,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokks.

„Ég held að svörin hér í kvöld kristalli gott samstarf í sveitarstjórn, bæði innan meirihluta og milli minni og meirihluta. Okkur greinir stundum á um málefni enda erum við kosin til þess en við göngum óbundin til kosninga, málefnin skipta mestu máli um samstarfið,“ sagði Jónína.

„Vði höfum tvenn áherslumál. Annars vegar náttúruvernd og að tengja aðgerðir gegn loftslagsbreytingum virkri náttúruvernd þannig ekki sé gengið um of á náttúruna, hins vegar aukinn jöfnuð. Ef við náum áherslum á þessum sviðum erum við tilbúin að ganga með hverjum sem er þann veg,“ sagði Pétur.

Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, ítrekaði eins og aðrir gott samstarf í núverandi sveitarstjórn. „Ég hef stundum íhugað að leita til sálfræðings vegna þess hversu oft ég hef verið sammála Vinstri grænum. Mér hefur liðið eins og Loka Laufeyjarsyni, hvorki vinstri til hægri, milli þursa og goða. Samstarfið hefur verið frábært og við göngum óbundin til kosninga.“

„Við getum hugsað okkur að starfa með öllu því góða fólki sem hér er. Reynsla okkar er að þetta sé fólk sem vilji sínu samfélagi vel,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans.

Heyra má nákvæmari svör framboðanna, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.