Metþátttaka í heilsueflingarverkefni í Fjarðabyggð

„Ég hef nú bara sjaldan fengið jafn góð viðbrögð við þessu og hér í Fjarðabyggð og það er algjör metþátttaka,“ segir dr. Janus Guðlaugsson, sem stýrir viðamiklu heilsueflingarverkefni fyrir eldri borgara í sveitarfélaginu næstu mánuði og ár.

Fjölþætt heilsuefling heitir verkefnið en það er fyrirtækið Janus Heilsuefling sem þróað hefur og leiðir verkefnið en Fjarðabyggð niðurgreiðir kostnað fyrir áhugasama. Alls hafa 120 einstaklingar 65 ára eða eldri skráð sig til þátttöku og fara þeir allir í ítarlegar heilsumælingar áður en verkefnið hefst fyrir alvöru um miðjan mánuðinn.

Janus segir að markmiðið sé að heilsuefla þá sem komnir eru á eldri ár en margháttaðar rannsóknir hafa sýnt að það er sjaldan mikilvægara en á efri árum að viðhalda styrk og gæta mataræðis til að bæta heilsu og líf en ekki síður til að hægja á öldrunareinkennum sem koma fram hjá öllum þegar líður á lífið.

„Þarna fer fram mjög ítarleg heilsugreining allra sem þátt taka og við þá greiningu er tekið tillit til fjölmargra heilsuþátta. Það hefur verið viss vakning undanfarin ár að heilsuefling þeirra sem eldri eru borgar sig margfalt aftur fyrir samfélagið enda sýnt sig að slíkt bætir líðan og almenna heilsu nægilega mikið í flestum tilfellum til að fólk geti verið lengur heimavið án sérstakrar aðstoðar, lengur nægilega hraust til að taka þátt í daglega lífi og ekki síður jafnvel að lengja starfsferilinn. Við köllum þetta að vera sjálfbær á eigin heilsu.“

Eflingin fer fram með ýmsum hætti en áhersla er mikil á styrktar- og þolþjálfun enda segir Janus að vöðvarýrnun hrjái alla sem komnir séu á aldur og aðeins styrktarþjálfun gagnist gegn slíku. Heilsufarsmælingar og fyrirlestrar verða um heilsu, velferð og mataræði og þátttakendur fá aðgang að sérstöku appi þar sem hægt er að fylgjast náið með hverju fram vindur meðan á verkefninu stendur.

Janus segir að um sé að ræða tveggja ára verkefni í Fjarðabyggð en margir kjósi að taka annaðhvort sex eða tólf mánaða kúrs til að byrja með. Hann útilokar ekki að framhald verði á verkefninu í sveitarfélaginu að tveimur árum liðnum ef ástæða þykir til.

Dr. Janus Guðlaugsson hefur lengi haft sérstakan áhuga á heilsueflingu eldri borgara enda fyrirséð að þeim mjög fjölga hratt víðast hvar á Vesturlöndum næstu ár og áratugi. Mynd Facebook/JanusHeilsuefling

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.