Meta hvort varnirnar taki við mögulegum skriðum

Sérfræðingar nýta helgina til að meta hvort þær bráðabirgðavarnir sem til staðar eru við Búðará á Seyðisfirði geti tekið varið byggðina þar ef það svæði sem nú er á hreyfingu fellur sem skriða.

Þetta kemur fram í tilkynningu almannavarna í kvöld.

Níu hús við ána voru rýmd á mánudag eftir að hreyfing mældist á jarðvegsfleka milli árinnar og skriðusársins frá í desember.

Lítilsháttar hreyfing mældist á flekanum í dag. Hún er mismikil eftir staðsetningu mæla.

Svæðið er talsvert sprungið og því talið líklegra að það falli í smærri brotum heldur en allt í einu, fari það á annað borð af stað.

Um helgina verður metið hvort þær varnir sem byggðar hafa verið upp við ána, leiðigarðar og safnþró, taki við skriðum af svæðinu, jafnvel þótt það fari allt af stað í einu. Niðurstaða þess ætti að liggja fyrir strax eftir helgi.

Ekki er gert ráð fyrir að íbúar geti snúið til síns heima fyrr en eftir helgi. Öll óviðkomandi umferð um skriðusvæðið er óheimil.

Fjöldahjálparmiðstöðin í Herðubreið verður opin frá 14-16 á morgun, líkt og verið hefur þá er minnt á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717.

Á vef Veðurstofunnar eru aðgengilegar upplýsingar úr mælingum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.