Mest rask af Suðurleið á gróður

Svokölluð Suðurleið, lega nýs vegar frá Fjarðarheiðargöngum um Egilsstaði, er sá kostur sem mestu raski veldur á gróðurfari svæðisins. Norðurleið er hins vegar með fleiri neikvæða umhverfisþætti, meðal annars vegna áhrifa á útivist.

Þetta kemur fram í umhverfismatsskýrslu Vegagerðarinnar sem liggur nú frammi til kynningar og athugasemda. Þar eru bornar saman þær veglínur sem í boði eru frá munnum Fjarðarheiðarganga.

Héraðsmegin er munninn við Dalhús á Eyvindarárdal og þaðan koma þrjár línur til greina. Mið- og Suðurleið gera ráð fyrir þverun árinnar rétt við munnann og vegurinn liggi síðan meðfram ánni þannig hann flytjist af Egilsstaðahálsi. Við bæinn skilja leiðir, Miðleiðin fylgir Fagradalsbrautinni en Suðurleiðin fer inn fyrir bæinn.

Með Norðurleiðinni sveigir vegurinn af Fagradal yfir Eyvindaránna fyrir innan göngin og fylgir síðan ánni að austanverðu uns hann þverar ána aftur við Melshorn og tengist þar veginum yfir Egilsstaðanes. Með tilliti til umferðaröryggis og samfélagsþátta telur Vegagerðin að Suðurleiðin henti best.

Birkiskógurinn verðmætur

Allar leiðirnar raska vistkerfum sem njóta sérstakrar verndar en Suðurleiðin virðist valda mestu. Af f fimm atriðum gróðurfars sem metin teljast þrjú verulega neikvæð á suðurleiðinni og tvö mjög neikvæð. Á Norðurleiðinni er eitt atriði verulega neikvætt og tvö mjög neikvæð. Minnst rask er af Miðleiðinni enda fylgir hún mest núverandi vegi. Ekkert atriði er talið verulega neikvætt.

Áhrifin snúast fyrst og fremst um Egilsstaðaskógur, sem er gamall birkiskógur með fjölbreyttum vistgerðum. Vegna þessa hefur verið rætt um friðlýsingu hans. Á leiðunum er einnig votlendi en samfellt votlendi meira en tveir hektarar að stærð nýtur verndar.

Norðurleiðin færi yfir 229 hektara gróins lands, þar af 66 hektara skógarins og 18 hektara votlendis en Suðurleiðin yfir 193 hektara gróðurs þar af 94 hektara birkiskógar auk 34 hektara votlendis. Vegna þessa telst Suðurleiðin hafa veruleg neikvæð áhrif á birkiskóginn.

Á báðum leiðunum er verndað votlendi en tekið er fram að hluta votlendis á Suðurleiðinni hafi þegar verið raskað með skurðum. Eru áhrifin því metin mjög neikvæð, veruleg og óafturkræf. Mögulegt er talið að draga úr hluta áhrifanna á Norðurleiðinni með tilfærslu vegarins.

Þriðja atriðið sem talið er verulega neikvætt af Suðurleiðinni er áhrif hennar á vistgerðir. Á henni fannst 21 plöntutegund, þar af fjórar með mjög hátt verndargildi sem þekja 35 hektara og sex með hátt gildi. Á leiðinni finnast 15 sjaldgæfar fléttutegundir, þar af fimm sem eru á válista. Sérstaklega er vikið að verðmæti blæaspar sem vex í Egilsstaðaskógi.

Rétt er að taka fram að áhrifin eru metin án mótvægisaðgerða og Vegagerðin telur hægt að hanna veginn til að lágmarka áhrif á blæöspina. Helstu mótvægisaðgerðir eru annars endurheimt vot- og skóglendis, uppgræðsla og góður frágangur á leiðunum. Ekki er þó talið að þær breyti niðurstöðu matsins.

Norðurleiðin neikvæð fyrir útivist

Bæði Norður- og Suðurleiðinni teljast hafa talsvert neikvæð áhrif á fuglalíf, Norðurleiðin þó sínu meira þar sem hún fari um fjölbreytt búsvæði sem séu viðkvæm fyrir breytingum. Þar fundust 18 tegundir, þar af þrjár á válista og fjórar á forgangslista, samanborið við 23 tegundir á Suðurleiðinni og fjórar á forgangslista en enga á válista. Áhrif á fiska eru óveruleg, helst þó af Norðurleiðinni þar sem hún þverar Eyvindaránna tvisvar.

Brúargerðin hefur einnig áhrif á jarðfræðimyndanir þar sem gil Eyvindarárinnar er merkast. Athyglivert er þó að áhrifin eru metin mest af Mið-og Suðurleiðinni þar sem brúin fyrir þær þverar ána efst í gilinu meðan Norðurleiðin sneiðir framhjá því.

Norðurleiðin er talin hafa neikvæðust áhrif á útivist, enda fer hún um svæði sem í dag eru skilgreind til útivistar utan Eyvindarár. Áhrif Norðurleiðarinnar á ásýnd landslags eru talin mest þar sem hún fari um „heildstætt og mikilfenglegt landslag.“ Hún liggur utan í Dalhúsahólum, sem teljast hafa hátt verndargildi og um Miðhúsaskóg þar sem hún myndi rjúfa friðsæld sumarhúsa. Hún er líka talin stangast mest á við núverandi skipulag þar sem hún fer um útivistarsvæðin. Hún raskar líka flestum svæðum á náttúruminjaskrá og Náttúrumæraskrá Fljótsdalshéraðs.

Norðurleiðin hefur neikvæðust áhrif á hljóðvist því hún fer í meira mæli nærri þjónustu- og íbúðarsvæðum auk svæða sem notuð eru til náttúruskoðunar en slík svæði eru viðkvæmust fyrir breytingum á hljóð- og loftgæðum. Niður mun berast á þéttbýlið syðst á Egilsstöðum frá Suðurleiðinni sem og opin svæði en á ekki að fara yfir viðmiðunarmörk.

Af þeim fornleifum sem skráðar voru við umhverfismatið eru 64% á Norðurleiðarinnar. Allar leiðirnar fara í gegnum heimatún Dalhúsa þar sem skráð eru útihús en Norðurleiðin fer einnig um Miðhúsaskóg þar sem er meðal annars fjöldi kolagrafa. Þær finnast einnig í Egilsstaðaskógi en í minna mæli. Skoða þarf hvort ráðast þurfi í rannsóknir á merkustu svæðunum með könnunarskurðum.

Alls eru tólf atriði metin í samanburði leiðanna. Af þeim eru tvö talsvert neikvæð á Norðurleiðinni, áhrif á landnotkun og útivist og fjögur nokkuð til talsvert neikvæð. Á Suðurleiðinni er eitt talsvert neikvætt, áhrifin á gróðurinn en fjögur nokkuð til talsvert. Út frá þessu telur Vegagerðin umhverfisáhrif Norðurleiðarinnra mest.

Lítil áhrif Seyðisfjarðarmegin

Seyðisfjarðarmegin eru áhrifin í flestum tilfellum talin óveruleg eða minni háttar. Þar verður gangamunninn við Gufufoss og þaðan koma tvær veglínur til greina, annars vegar núverandi vegur, hins vegar nýr vegur aðeins ofar með minni bratta.

Trúlega þarf að taka könnunarskurði vegna fornleifa, svo sem í heimatúni Fjarðartúns og á óþekktri tóft sem er á leiðinni. Á nýju leiðinni fundust 28 vistgerðir, þar af þrjár með mjög hátt verndargildi og níu með hátt. Þar eru fjórir hektarar votlendis.

Í skýrslunni má einnig lesa um rask sem verður af framkvæmdunum, setja þarf út efni sem fellur til við gangagröftinn. Vonast er til að eitthvað af því verði hægt að nýta en annars er reiknað með um 8 hekturum hvoru megin undir haugstæði sem síðar verði grætt upp. Að vinnubúðum þarf að leggja veitur, svo sem vatn og rafmagn. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.