„Menn hafa verið ófeimnir við umræðuna“

Minnihlutinn í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs sakar meirihlutann um að kæfa umræðu um fráveitumál í sveitarfélaginu. Fulltrúar meirihlutans hafna þeim ásökunum og segja minnihlutann reyna að drepa umræðunni á dreif.

Nokkuð snörp skoðanaskipti urðu á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem tekin var til umræðu svar sveitarfélagsins við spurningum Skipulagsstofnunar um hvort það teldi þörf á að fyrirhugaðar fráveituframkvæmdir fari í umhverfismat. Þau bréfaskipti eru hluti af ferli stofnunar af því að ákveða hvort þörf sé á matinu.

Áður en málið kom fyrir bæjarstjórn var málið á dagskrá umhverfis- og framkvæmdanefndar. Þar sátu tveir fulltrúar Héraðslistans hjá og vísuðu í eldri bókanir sínar þar sem ferlið og vinnubrögðin hafa verið gagnrýnd.

Á bæjarstjórnarfundinum lögðu fulltrúar Héraðslistans fram bókun þar sem þeir sögðu meirihluta nefndarinnar hafa komið í veg fyrir að nefndin kæmi að vinnu við umsögnina sem senda ætti Skipulagsstofnun.

Björg Björnsdóttir, bæjarfulltrúi listans, sagði það hafa verið upplifun fulltrúanna í nefndinni að ekki væri svigrúm til að ekki væri svigrúm til að taka málið til umræðu þar. „Það er brýnt um mál sem þetta, sem við vitum að ólík sjónarmið ríkja um, að gefa tækifæri til skoðanaskipta, ekki síst á vettvangi fagnefndanna,“ sagði hún.

Þurfum að ræða skýrslu Eflu

Gagnrýni Héraðslistans á umsögnina sjálfa snýr að svari við spurningu um hvort nógu vel hafi verið gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun í skýrslu sem send sé til Umhverfisstofnunar.

Fráveitan á Héraði er í höndum Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF). Verkfræðistofan Efla vann skýrslu fyrir HEF sem talsverður styr hefur staðið um allt þetta ár og hafa gagnrýnendur bæði hamrað á því sem kemur fram í skýrslunni og því sem ekki er að finna þar, svo sem útlistun á öðrum kostum. Sú skýrsla fylgdi umsögninni til Skipulagsstofnunar. Þá segir í bókun Héraðslistans að í svari sveitarfélagsins skorti umfjöllun um mótvægisaðgerðir og vöktun.

Á bæjarstjórnarfundinum gagnrýndi Björg að erfitt hefði verið fyrir nefndina að ræða málið efnislega þar sem drög að svarinu til Skipulagsstofnunar hefðu einfaldlega ekki legið fyrir. Hún sagðist fagna því ef til stæði að ræða skýrslu Eflu, sem ekki hefði verið gert í nýrri stjórn HEF eða bæjarstjórn.

„Við verðum að hafa kjark í erfiðum málum til að leyfa ólíkum sjónarmiðum að heyrast. Við hljótum einhvern tíman þurfa að eiga þessa umræðu, það er ekki endalaust hægt að ýta umræðu um skýrsluna til hliðar,“ sagði hún.

Ekki hægt að loka á umræðu þegar mál er komið á dagskrá

Fulltrúar meirihlutans höfnuðu því að reynt lokað hefði verið á umræðuna í umhverfis- og framkvæmdanefnd. „Menn hafa verið ófeimnir við umræðuna. Hún hefur verið tekin á framboðsfundum, bæjarstjórnarfundum, nefndarfundum og kaffistofum. Málið var á dagskrá nefndarinnar og það lágu fyrir gögn. Ég kannast ekki við hvernig komið er í veg fyrir umræðu um mál sem er á dagskrá. Nefndarmenn höfðu alla möguleika á að koma á framfæri sínum sjónarmiðum með bókunum og munnlega.

Ég skil ekki hvernig það er ekki forsenda til að ræða mál að ekki sé fyrst til eitt svar, ég hefði jafnvel talið það betra að umræðan byrjaði á opnum grunni án fyrirfram mótaðrar afstöðu.

Hitaveitan sem leggur upp framkvæmdina. Hún hefur stjórn og þar gefst afbragðs tækifæri til að ræða málin. Ég hef ekki aðrar spurnir en það hafi fulltrúar gert svikalaust,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Erum að ræða umhverfismatið

Hann varaði við að verið væri að fara með umræðuna í aðrar áttir en málið snérist um, sem væri að svara spurningum Skipulagsstofnunar. „Við erum ekki að takast á við spurninguna hvort þetta eigi að byggja svona eða hinsegin heldur hvort bæjarstjórn telji að framkvæmdin sem Hitaveitan hefur sent inn eigi að fara í umhverfismat eða ekki.“

Hann hafnaði því ennfremur að ekki væri fullnægjandi að svara spurningu Skipulagsstofnunar um vöktun og mótvægisaðgerðir á þann hátt að það yrði tilgreint síðar. Það væri eðlilegur hluti af starfsleyfisskyldum framkvæmdum, líkt og fráveitum

Fyrirvarar við samþykktir í stjórn HEF

Gunnar Jónsson, stjórnarformaður HEF og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sagðist ekki sætta sig við að bæjarfulltrúar héldu fram ásökunum um þvingaðar umræður á nefndarfundum. Hann benti á að skýrsla Eflu hefði verið ítarlega rædd í fyrri stjórn HEF og verið samþykkt þaðan af öllum stjórnarmönnum. Þá hefði fjárhagsáætlun HEF verið samþykkt nýverið án mótatkvæða en í henni væri fráveitu framkvæmdin fyrirferðamest.

Björg sagði fulltrúa Héraðslistans hafa gert við það athugasemdir að í fundargerð HEF að skýrsla Eflu væri send áfram án umræðu. Þá hefðu þeir gert fyrirvara við samþykkt sína á fjárhagsáætluninni um að gerð yrði grein fyrir kostnaði við fráveituframkvæmdina í heild sinni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar