Skip to main content

Meiri þátttaka utankjörfundar en áður

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. sep 2021 10:02Uppfært 23. sep 2021 10:03

Tæplega 550 atkvæði hafa verið greidd utankjörfundar á Austurlandi fyrir Alþingiskosningarnar á laugardag. Það er meira en venjan er. Sýslumaður telur breytt viðhorf til utankjörfundaratkvæðagreiðslu eiga stóran þátt í þessu.


Í gær höfðu alls 545 greitt atkvæði utankjörfundar hjá sýslumanninum á Austurlandi. Lárus Bjarnason, sýslumaður, segir það töluvert meira en sést hafi áður, til dæmis hafi atkvæði greidd á skrifstofunni á Seyðisfirði þegar náð þeirri tölu.

Venjan sé síðan fyrir því að mestur þungi í utankjörfundarkosningunni sé síðustu tvo dagana fyrir kjördag. „Heimamenn koma fram á síðustu stundu, hringja jafnvel eftir lokun daginn fyrir kjördag.“

Í vikunni hefur meðal annars verið kosið á hjúkrunar- og öldrunarheimilum auk þess sem sérstök kosning er sett upp fyrir þá sem eru í einangrun eða sóttkví vegna Covid-faraldursins. Þeir þurfa að kjósa úr bílum sínum. Slík kosning hefst til dæmis við Fjarðabyggðarhöllina á Reyðarfirði klukkan 10:30 og var Lárus þar ásamt fleiri starfsmönnum embættisins að gera allt tilbúið þegar Austurfrétt ræddi við hann.

Sú kosning stendur til um klukkan 17:00 í dag. Hún er aðeins ætluð þeim sem verða í einangrun eða sóttkví á kjördag. Verulega hefur fækkað í þeim hópi sem er í sóttkví í kjölfar hópsmits á Reyðarfirði.

Óvenju mikil þátttaka er í utankjörfundarkosningunni í ár á landsvísu. Lárus telur faraldurinn eiga þar hlut að máli, fólk vilji tryggja að það hafi kosið áður en það lendi í sóttkví eða jafnvel einangrun. Breytt viðhorf gagnvart atkvæðagreiðslunni spilar einnig inn í að hans mati.

„Áður fyrr var það í lögum að fólk þyrfti að kjósa á kjörstað ef það væri heima á kjördag. Þetta var í raun neyðarúrræði fyrir þá sem ekki gátu verið heima á kjördag. Svo er ekki lengur, þetta er hluti af kosningunni en ekki úrræði og stjórnvöld hafa hvatt fólk til að nýta sér þetta.“

Kosið er við Fjarðabyggðarhöllina í dag. Mynd úr safni.